135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:47]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Byggðakvótinn er einn af öryggisventlunum fyrir byggðirnar og á að bregðast við þeim ágöllum sem eru á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og er því mjög mikilvægt verkfæri fyrir þær byggðir sem verða illa út úr þeirri þróun, sérstaklega í ljósi válegra tíðinda af stöðu þorskstofnsins.

Framkvæmd sjávarútvegsráðuneytisins og hæstv. ráðherra á úthlutun byggðakvótans er vægast sagt til vansa. Nú fyrst er verið að veiða byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2006/2007 og nýtt fiskveiðiár er hafið. Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að útdeila byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2007/2008 sem nú er yfirstandandi og hvernig er staðan nú í veiðum á byggðakvótanum? Er ljóst hvort smábátar muni geta veitt þann byggðakvóta sem úthlutað var á síðasta fiskveiðiári? Er sá frestur nægilegur sem þeim var veittur til að veiða hann?

Það er því miður staðreynd að þessi framkvæmd hefur verið lýti á byggðakvótanum. Ég verð var við það út um land að umræðan um byggðakvóta er orðin mjög neikvæð og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé ekki vegna þess hvernig sjávarútvegsráðuneytið hefur staðið að verki í þessu mikilvæga máli. Það er mjög mikilvægt fyrir byggðirnar að frá skýr svör við því hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar sér með það mikilvæga stjórntæki sem byggðakvótinn er fyrir byggðirnar.