135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:49]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá hv. 6. þm. Norðaust. að gerðar voru verulegar breytingar á lögum sem sneru að byggðakvótanum. Það sem var ánægjulegt í þeim efnum var að það tókst að skapa mikla samstöðu um þessi mál á Alþingi og Alþingi samþykkti þessar breytingar samhljóða. Einhvern tíma hefðu það þótt heilmikil tíðindi að breið samstaða tækist á þinginu um það hvernig að haga ætti málum varðandi úthlutun á byggðakvóta.

Þessi ákvörðun og lagasetning var gerð við lok þingsins og kallaði á alls konar breytingar sem vinna þurfti að. Þetta gerði það m.a. að verkum að kæruferlar voru gerðir gagnsærri og kærumöguleikar meiri sem hafði það í för með sér að úthlutun byggðakvótans tók lengri tíma auk þess sem þessar breytingar, sem m.a. sneru að sveitarfélögunum, kölluðu á það að menn þurftu að tileinka sér ný vinnubrögð, t.d. hjá sveitarfélögunum. Það komu í ljós margs konar vanhöld á þessu sem við vorum að reyna að bregðast við.

Það er ekki þannig að sjávarútvegsráðuneytið hafi verið að tefja úthlutun þessa kvóta. Breytingarnar sem gerðar voru gerðu það að verkum að þessi úthlutun varð einfaldlega tímafrekari en við höfðum gert ráð fyrir. Fram á þennan dag höfum við staðið í því að ljúka þessari úthlutun byggðakvótans. Ég geri ráð fyrir að byggðakvótinn verði að öllu og fullu nýttur fyrir lok þessa árs í samræmi við ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins. Því er ekkert að vanbúnaði að við getum úthlutað byggðakvótunum miklu fyrr á þessu fiskveiðiári.