135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

4. fsp.

[14:02]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég legg mikla áherslu á að vel sé búið að Listaháskóla Íslands. Allar þjóðir með sjálfsvirðingu búa vel bæði að listaháskólum og náttúruminjasöfnum. Þar hefur þessa ríkisstjórn og undanfarandi ríkisstjórnir skort metnað og framtíðarsýn.

Það var ljóst frá upphafi að Listaháskólinn kærði sig engan veginn um að vera í Vatnsmýrinni. Það hefur alltaf legið fyrir, enda var áskilið í þessari yfirlýsingu að Listaháskólinn mætti ráðstafa þessari lóð annað, sem hefur nú verið gert. Það blasir við að henni hefur verið nú þegar verið afsalað í makaskiptum til Samson Properties, sem er byggingar- og fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Guðmundssonar og fleiri. Í staðinn fær Listaháskólinn ágætis svæði á mótum Frakkastígs, Laugavegar og Hverfisgötu.

Árlegt framlag ríkisins, 210 millj. kr., á að fara í leigu til Samson (Forseti hringir.) til 30 ára, samtals 6,3 milljarðar kr. Til samanburðar yrði Náttúruminjasafn Íslands, með því framlagi sem því er ætlað á fjárlögum (Forseti hringir.) næsta árs, 30 ár bara að vinna fyrir lóðinni sem búið er að afsala. En hún er metin á 1 milljarð kr.