135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta hlutverk alþingismanna er að nýta sér þann vettvang sem þingsalurinn er til að taka upp málefni líðandi stundar eða almenna stefnumörkun í stjórnmálum og ástunda þar umræðustjórnmál til þess að hafa áhrif á á ákvarðanatöku í kjölfarið á umræðunum. Því vænti ég þess að það hafi verið mistök sem ekki verða endurtekin að fundið sé að því að menn taki upp í þingsölum tillögur sem eru að fæðast í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og eru á leiðinni til hæstv. ráðherra, og ræði málið við ráðherrann áður en málið kemst á ákvörðunarstig. Það er eðlilegur hlutur og ekki ástæða til að finna að því. Ég er satt að segja undrandi á því að heyra fundið að umræðustjórnmálum úr þessari átt, virðulegi forseti.

Ég tel að hugmyndinni á þessari stundu í þeirri stöðu sem við erum — ofan í þá ákvörðun sem ríkisstjórnin tók, þá vitlausu ákvörðun að skera niður þorskveiðiheimildir um 30%, sem er vitlaus efnahagsleg, vitlaus fiskifræðileg og vitlaus byggðarleg aðgerð — að fara að umbreyta gömlum, úreltum lagaákvæðum sem ekki hafa haft nein áhrif og ætla sér lyfta þeim upp í aðgerð sem bítur fólk í burtu, sé ekki hægt að taka þegjandi, virðulegi forseti.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér fannst svör hæstv. félagsmálaráðherra að mörgu leyti mjög góð. Mér fannst ráðherrann sýna að hún hefði skilning á þörfum landsbyggðarinnar, skilning á því að byggja þarf upp atvinnulíf á landsbyggðinni en ekki að flytja fólkið þaðan. Þó að ég sé ekki alltaf sammála því sem ríkisstjórnin er að gera í þeim efnum, þá er það eitt að grípa til mótvægisaðgerða viðurkenning á því að atvinnumálin (Forseti hringir.) eru verkefni en ekki að flytja fólkið burt. Ég vona að hæstv. ráðherra og ég verðum samferða í því máli á komandi vetri.