135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrning kröfuréttinda.

67. mál
[14:49]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um fyrningu kröfuréttinda sem er heildarendurskoðun á lögum um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda frá árinu 1905. Þessi heildarendurskoðun hófst fyrir nokkrum árum og var það þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sem leiddi það mál þannig að í grunninn erum við framsóknarmenn hlynntir því að taka þessi málefni til heildarendurskoðunar.

Hins vegar tek ég undir t.d. með hv. þm. Atla Gíslasyni að það er mjög mikilvægt að við förum yfir þetta málefni í nefndinni. Það eru nokkur álitamál þarna sem við þurfum að fara betur yfir og rétt eins og hæstv. ráðherra kom að hér þurfum við að taka tillit til ýmissa sjónarmiða og að sjálfsögðu verður þetta frumvarp sent út til umsagnar til hlutaðeigandi aðila.

Ég legg áherslu á að hér er um mjög stórt mál að ræða sem er mikilvægt að nefndin fari vel yfir. Hins vegar vildi ég að það kæmi hér fram að það var m.a. fyrir hlutdeild okkar framsóknarmanna sem þessi heildarendurskoðun fór fram. Ég legg mikla áherslu á að það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka í því nefndarstarfi sem er fram undan.