135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:35]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef miklar efasemdir um að við göngum götuna til góðs þegar við erum að færa ákvarðanavald í þjóðfélaginu frá stofnunum á borð við þessa, Alþingi Íslendinga eða sveitarstjórnum, yfir til auðmanna, þeirra sem hafa peninga handa á milli. Hugtakið auðvald smellur sem flís við rass, eins og það gerði fyrr á tíð. Viljum við þetta?

Viljum við að Baugsmenn, Björgólfar og Jónar Ásgeirar lækni og líkni, ákveði áherslur í heilbrigðismálum, í skólamálum eða í menningarmálum? Viljum við svona þjóðfélag? Viljum við þjóðfélag misskiptingar, sem fer hér vaxandi?

Fyrr í dag var rætt um vandamál í hinum dreifðu byggðum landsins. Við heyrum af biðröðum eftir húsnæði. Við fáum fréttir af því að fátækt fólk hafi ekki lengur efni á því að leita sér lækninga. En við fáum líka fréttir af auðmönnunum sem halda upp á afmæli sín, boða til mikilla afmælisveislna hér á landi og utan lands sem kosta mörg hundruð milljónir króna. Þetta er ekki það samfélag sem ég held að íslenska þjóðin sækist eftir. Ég held ekki. Ég er ósammála fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu hvað þetta snertir.

Varðandi aðkomu sérfræðinga að þessari vinnu vil ég vekja athygli á því að í þingsályktunartillögunni er vísað til þess að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi skipi fulltrúa sína. Að sjálfsögðu munu þeir leita til sérfróðra aðila og að sjálfsögðu mun hið sama gilda um verkalýðssamtökin og samtök atvinnulífsins hvað það snertir. (Forseti hringir.) Auðvitað er verið að efna til vitiborinnar umræðu þar sem sérfrótt fólk (Forseti hringir.) kemur að máli. Ég auglýsi enn eftir rökum frá hv. þingmanni um hvernig hann vilji standa að þessu máli.