135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:38]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur. Ég tel nær að sleppa millileiðinni sem þarna er farin og skipa slíka sérfræðinganefnd beint, annaðhvort af forsætisráðherra eða af ríkisstjórninni og síðan skili sérfræðinganefndin skýrslu, annaðhvort til forsætisráðherra, þ.e. ríkisstjórnar eða þings. Ég held að sú leið sé betri en sú sem lagt er upp með hér. Ég tel að þetta sé ekki bara pólitískt viðfangsefni. Þetta er rannsóknarefni og það ætti að setja beint í hendur sérfræðinga.

Hvað varðar þessa breyttu samfélagsgerð, af því að þar auðvitað rekast á hugsjónir okkar og mismunandi skoðanir á því hvernig samfélagið eigi að verða. Við verðum auðvitað dæmdir af verkum okkar sem berum ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið undanfarin ár. Það er alveg rétt. Reynslurökin verða að tala, hv. þingmaður, rétt eins og bent var á í upphafi umræðunnar. Hver eru reynslurökin, þegar við horfum til síðustu 16 ára eða svo? Hver er reynsla okkar Íslendinga af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið eftir undir forustu Sjálfstæðisflokksins? Hún er þessi: Kaupmáttaraukning á þessum tíma hefur aldrei verið jafnmikil í sögu lýðveldisins. Geta okkar til þess að veita opinbera þjónustu, t.d. heilsugæslu, menntun og félagsþjónustu, hefur aldrei verið jafnmikil. Ríkissjóður Íslands hefur aldrei staðið jafn vel. Við höfum náð að greiða niður skuldir okkar við útlönd. Hver hefði nú trúað því? Á sama tíma höfum við lækkað skatta og skilið meira eftir í buddunni hjá almenningi og um leið aukið útgjöldin til þeirra málaflokka sem ég nefndi hér áðan. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þegar horft er lengra aftur í tímann er þetta ekki sú saga sem við horfum á. Það er saga um stanslausan ríkishalla, erfiðleika í atvinnurekstri, neyðaraðgerðir til þess að bjarga atvinnuvegunum og samfélag sem var miklu fábrotnara og einfaldara en það sem nú er.

Við skulum einmitt tala um reynslurökin. Við skulum tala um það hver reynslan er og þá sjáum við sjálfstæðismenn að við getum staðið stolt og horft til okkar verka og sagt: Við höfum breytt þessu samfélagi (Forseti hringir.) til hins betra. En það er ekki þar með sagt að við höfum búið til fullkomið samfélag. Það er langt í frá enda getur enginn maður gert sér (Forseti hringir.) vonir um slíkt.