135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:42]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri heilmikinn greinarmun á því hvort um er að ræða pólitíska nefnd, eins og mér sýnist lagt upp með í þessari tillögu (Gripið fram í.) og að sett sé saman sérfræðinganefnd sem fengi það verkefni að gera fræðilega úttekt á þessari niðurstöðu. Ég óttast enga slíka skoðun og mundi bara fagna slíku. Það væri í raun alveg ágætt og vel til fundið.

En þó vil ég nefna að fyrir liggja ýmsar skýrslur og athuganir á afleiðingum einkavæðingar. Þar nefni ég aftur einkavæðingarnefnd sem birt hefur skýrslur um einstök einkavæðingarverkefni, hvernig þeim hafi reitt af og hvernig þeim hefur gengið við einkavæðinguna. Vissulega er það miðað töluvert við framkvæmdina sjálfa. En um leið eru menn líka að skoða það umhverfi sem einkavæðingin fer fram í og það er ekki svo að menn hafi ekki velt þessu rækilega fyrir sér.

Enn og aftur, af því hér var talað um græðgisvæðingu. Græðgi er í sjálfu sér löstur. Ég vorkenni þeim mönnum sem lifa við þann þunga löst að vera gráðugir. Græðgi hefur ekkert með einkavæðingu að gera. (Gripið fram í.) Það getur verið ágætt að gleðjast yfir því sem menn hafa gert vel og ef mönnum hefur tekist vel upp í því, hv. þingmaður, að búa til verðmæti þá er það til að gleðjast yfir. Sennilega gleðjast þeir mest sem mest hafa á sig lagt. Það er eðlilegt. En græðgi er alltaf slæm. Hún er verst fyrir þá sem fyrir henni verða.

Það að leggja það að jöfnu eða segja að græðgi sé til vegna einkavæðingar eða hafi fengið þar einhverja sérstaka útrás þá tel ég, þegar horft er til baka í sögunni, að við finnum mörg dæmi um græðgi. Hún hefur sprottið upp hvort sem verið hafa lítil eða mikil ríkisumsvif. En í því fátæka landi sem var hér fyrir ekki svo löngu, þar sem ríkið réð svo miklu og áhrif stjórnmálamannanna voru svo mikil átti græðgin til að finna sér aðrar leiðir en bara gegnum það að eignast peninga. (Forseti hringir.) Oft fóru menn illa með það vald sem þeir höfðu, hvort sem það var frá ríkinu eða í gegnum (Forseti hringir.) atvinnulífið. Stundum höguðu menn sér þannig að græðgin kom fram með ömurlegum afleiðingum.