135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[15:50]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Herra forseti. Ég var á leiðinni út áðan að fá mér kaffibolla með hv. þingmanni, séra Karli Matthíassyni, þegar ég fékk slíkt magnþrungið augnaráð frá hv. þingmanni Framsóknarflokksins að ég sé mig tilknúinn til að stíga hér í pontu og svara fyrir hönd mína og Samfylkingarinnar í þessum málaflokki vegna þess að það hefur ýmislegt verið sagt um Samfylkinguna og Samfylkingunni gerðar upp skoðanir varðandi einkavæðingu, heyrist mér, í umræðunni. Þetta verður því jómfrúarræða mín á þingi um þetta mál, m.a. út af þessu augnaráði.

Það er oft gefið í skyn í umræðunni að Samfylkingin sé á einhvern hátt, ekki síst vegna þess að hún gekk í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, skilyrðislaust fylgjandi því að einkavæða alla hluti. Við höfum hins vegar ljáð máls á því að við verðum að skoða mismunandi rekstrarform í samfélagsþjónustu. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir m.a. að við verðum að skoða heilbrigðisþjónustuna. Virkar hún vel eins og hún er núna? Virkar það vel að hafa einn stóran miðstýrðan ríkisspítala? Eru ekki biðlistarnir þarna gríðarlegir? Talar það ekki sínu máli?

Er einkarekstur þegar í heilbrigðisþjónustu? Já, t.d. hjá tannlæknum, augnlæknum og alls konar klíník úti um alla borg sem er einkarekin. En hvert er grundvallaratriðið þarna? Grundvallaratriðið er að þau eru öll innan sjúkratryggingakerfisins og það má að sjálfsögðu aldrei einkavæða. Allir verða að hafa jafnan aðgang að þjónustunni hvernig sem við veitum hana. Svo verður að skoða það hvernig best er að veita hana. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið eins og það er núna í þessu afmarkaða dæmi heilbrigðisþjónustunnar sé ekkert endilega til fyrirmyndar og ég er viss um að þingmenn Vinstri grænna eru á sama máli.

Síðan fagna ég því auðvitað að við ætlum að hefja umræðu og ég held að hún hafi líka verið mjög mikil í samfélaginu um einkavæðingu og hvort hún hafi verið góð eða ekki. Ég ætla alls ekki á mínum fyrsta degi á þingi að taka t.d. alla framkvæmd einkavæðingar Búnaðarbankans í fangið og mæla því einhverja sérstaka bót hvernig hún fór fram. Ég held að ýmislegt megi skoða í því ferli. Ég held að sérhver einkavæðing í samfélaginu og einkavæðingarferli og markaðsvæðing samfélagsþjónustu kalli á spurningar, afmarkaðar spurningar hverjar og einar, t.d. háskólakerfið. Þar höfum við einkarekna háskóla núna og ég fagna því, minn flokkur fagnar því. En þá þurfum við líka að skoða stöðu Háskóla Íslands. Markaðsvæðing háskólakerfisins hefur leitt til fjölbreyttara háskólakerfis en það kallar að sama skapi á spurningar um það hvernig við eflum Háskóla Íslands.

Einkavæðing bankanna sem er náttúrlega gríðarlega umfangsmikil kallar á fjölmargar spurningar. Hefur einkavæðing bankanna t.d. leitt til þess að samkeppnisumhverfi sé virkt gagnvart neytendum á Íslandi? Hugsanlega ekki. Þetta má kanna og ég held að við séum stöðugt að kanna það og ég held að þetta sé eitt yfirgripsmesta samfélagsmál nútímans á Íslandi.

Þessi umræða fer stöðugt fram þannig að auðvitað fagna ég því að Vinstri grænir vilji opna umræðu um þessi mál hvort sem þeir gera það með þessum hætti eða öðrum. Ef við hefðum þingnefndir á Íslandi sem hefðu leyfi til þess að skoða afmarkaða hluti held ég að það hafi gefist fjölmörg tilefni til þess á undanförnum árum að skoða ýmis einkavæðingarferli. Ég mundi því segja að til langs tíma ættum við að stefna að því, það er mín persónulega skoðun, að koma á slíkum nefndum.

Við aðhyllumst umræðustjórnmál, við förum ekkert ofan af því. Hins vegar vekur það athygli mína að í hvert einasta skipti sem samfylkingarmaður opnar munninn á grunni stefnu Samfylkingarinnar um að tilhlýðilegt sé að skoða ýmis rekstrarform á samfélagsþjónustu, þá rjúka ekki síst þingmenn Vinstri grænna upp og væna okkur um það frasakennt að vilja einkavæða allt, eins og það er orðað. Þetta er af og frá. Ég vonast þá til að þingsályktunartillagan sé til vitnis um það að einmitt vinstri grænir sem hafa, leyfi ég mér að segja, verið hvað helst til klisjukenndir í umræðunni og hvað helst í skotgröfum í umræðunni á undanförnum árum, að þeir séu ekki síst reiðubúnir til þess að skoða ýmis rekstrarform á samfélagsþjónustunni með opnum huga nákvæmlega eins og Samfylkingin er tilbúin til að gera.