135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:04]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil, líkt og 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, þakka það sem ég vil kalla mjög góðar undirtektir við hana. Ég hygg að þingheimur allur átti sig á því að sá einkarekstur og sú einkavæðing sem farið hefur fram á undanförnum árum er ekki endilega mjög markviss og hefur ekki endilega skilað þeim samfélagslega árangri sem hún þarf að gera þó að hún hafi kannski skilað aurum í buddu einhverra gráðugra eða feitra katta, eins og það er kallað upp á enska tungu svona létt snarað. Það er hugsanlega of bratt að ætlast til þess að menn taki afstöðu til þessarar tillögu af eða á, hér og nú. En mjög gott færi mun væntanlega gefast á því í þingnefnd sem mun fá málið til umfjöllunar. Ég tel eins og fleiri að um mjög brýnt verkefni sé að ræða sem Alþingi megi ekki láta fram hjá sér fara án þess að taka afgerandi ákvörðun um þróun mála í framhaldinu. Það er ekki hægt að gera það öðruvísi en á grundvelli rannsókna.

Það hefur farið svolítið fyrir brjóstið á mönnum, þeim hv. þingmönnum sem hafa talað, að síðast í tillögugreininni er gert ráð fyrir því að fallið verði frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur þar til niðurstöður skýrslunnar liggja fyrir. En ég hygg að ef menn skoða þann tímaramma sem settur er, áætlað er að verklok geti verið fyrir 1. október 2008, sem sagt að ári liðnu, ætti það ekki að vera svo mikið vandamál.

Vissulega er hér spurt um hugmyndafræði og því er ekki að leyna að oft finnst manni eins og hugmyndafræði frjálshyggjunnar hafi gripið þetta samfélag þannig að líkja megi við kverkatak. Við sjáum byggðirnar engjast undan græðginni sem hefur gripið um sig í orkugeiranum bara á undanförnum dögum. Við skulum gæta okkar í þessari umræðu að göfga ekki græðgina. Vissulega er hún löstur. Við skulum ekki göfga hana með fallegum orðum eins og að menn hafi komið miklu í verk og séu duglegir. Við skulum gæta okkar á því.

Það er eðlilegt að sérstaklega sé rætt um heilbrigðismál þegar verið er að tala um markaðsvæðingu í samfélagsþjónustunni. Í stefnu ríkisstjórnarinnar, eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra og reyndar líka í frægri ræðu hans í Valhöll í lok september, er lögð á það sérstök áhersla að gera breytingar í heilbrigðisþjónustunni, meðal annars með útboðum og þjónustusamningum.

Ekki þarf að fjölyrða í þessum sal um ástandið á heilbrigðisstofnunum landsmanna og það mikla vinnuálag og þau lágu laun sem starfsmenn þar búa við og ekki síður það öryggisleysi og þá biðlista sem plaga sjúklinga sem þangað leita eftir þjónustu. Svör ráðamanna, og nú ríkisstjórnarinnar og nýs heilbrigðisráðherra, við því hvað eigi að gera í þeim efnum eru öll á einn veg. Töfraorðið er svokallaður einkarekstur. Það eru útboðin og það eru þjónustusamningarnir og það er einkareksturinn sem nú á að bjarga öllu. Menn taka vissulega fram að alls ekki sé um einkavæðingu að ræða, alls ekki ameríska módelið. Þeir segjast ekki ætla að hverfa frá norræna módelinu sem byggist á jöfnum aðgangi allra að þjónustunni án tillits til efnahags og ekki ætla að hverfa frá því að þjónustan sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum. En sporin hræða og við sjáum að nú þegar er orðin mikil mismunun í kerfinu eftir efnahag. Við sjáum líka að heilbrigðisþjónustan er í æ ríkara mæli borin uppi af framlögum beint úr buddunni en ekki úr samfélagslegum sjóðum. Ég vil því ítreka að ekki er allt sem sýnist þegar menn segja að þetta sé ekki á þennan veg.

Menn afneita sem sagt ameríska módelinu og einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum en klæða þessar aðgerðir í afskaplega aðlaðandi búning fyrir alla hlutaðeigandi. Talað er um að nýta kosti einkaframtaksins og að auka fjölbreytni í heilbrigðisþjónustu. Talað er um að samkeppni muni minnka tilkostnað í kerfinu og loks á einkarekstur að auka valfrelsi sjúklinga og hækka laun starfsmanna. Það hljóta allir að sjá að það er afskaplega erfitt að hafna svo lokkandi boði miðað við þær aðstæður sem eru á heilbrigðisstofnunum. Það er athyglisvert að hækka eigi laun starfsmanna og bæta öryggi þeirra með útboðum og þjónustusamningum. Hvað gerist ef starfsmannaleigan, sem þarf að bjóða í verk hins opinbera og jafnvel á Evrópska efnahagssvæðinu ef umfangið er mjög mikið, fær ekki þjónustusamninginn eins og gerðist á dögunum á Landspítalanum? Hvaða tryggingar hafa starfsmennirnir þá fyrir störfum sínum? Hvar er þá atvinnuöryggið sem þeir njóta í hinu opinbera kerfi? Maður hlýtur í þeim efnum líka að spyrja: Hvaða samfella getur orðið í starfinu á sjúkrahúsunum ef starfsmannaleigur eiga sí og æ að sjá deildum fyrir starfsmönnum?

Við skulum átta okkur á því að sú einkavæðing, sá einkarekstur, sem nú þegar er í heilbrigðisþjónustunni og samfélagsþjónustunni hjá okkur hefur ekki orðið til vegna einhverrar markaðrar stefnumótunar eða vegna þess að sýnt hafi verið fram á að hún sé svo miklu hagkvæmari. Það er afskaplega tilviljunarkennt hvað er úti á einkamarkaðinum og hvað ekki. Því hefur jafnvel verið hreyft að það sem er úti á markaði í heilbrigðisþjónustunni geti verið tilkomið þar vegna þess að viðkomandi læknar, sem reka þá þjónustu úti í bæ, séu jafnframt í aðstöðu til þess inni á sjúkrastofnunum að takmarka aðgang að þjónustunni og lengja þar með biðlista. Þetta eru atriði sem við verðum að horfa á. Það er ekki nóg að fullyrða að einkarekstur sé hagkvæmur. Það verður, áður en lengra er haldið, að rannsaka árangur og áhrif einkavæðingar í samfélagsþjónustunni. Það eru allt mælanlegar stærðir en það þarf að mæla bæði fjárhagslegan og samfélagslegan ávinning. Ég lít svo á að með góðum undirtektum við tillöguna geti þingheimur (Forseti hringir.) sameinast um það.