135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu fjallar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu og lagt er til að meðan sú rannsókn fari fram verði engar frekari breytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Mér finnst að þessi tillaga lúti í sjálfu sér, svo pólitísk sem hún er í eðli sínu, ekki að réttu viðfangsefni þar sem hún snýst fyrst og fremst um formið á þjónustunni þar sem tekið er fyrir og athugað hvort þetta form eða hitt sé betra eða verra með þeirri gefnu forsendu að annað sé betra en hitt og þess vegna eigi ekki að gera neinar breytingar á meðan rannsóknin fari fram.

Mér finnst að menn eigi kannski að einbeita sér að hinum pólitísku viðfangsefnum á þessu sviði sem eru hlutir eins og að rannsaka áhrifin af vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Það eru út af fyrir sig mælanlegir hlutir. Það er hægt að fá fólk til að gera þá athugun. Það er hægt að rannsaka áhrifin af því að ráðstafa auðlind þjóðar, réttindum hennar til einkaaðila án endurgjalds, að gefa þeim fullt frelsi til þess að endurselja þá þau réttindi um lengri eða skemmri tíma eins og reynslan er komin af kvótakerfinu í fiskveiðistjórn.

Við getum rannsakað þetta og haft það til hliðsjónar þegar menn velta fyrir sér hvernig eigi að skipa málum með löggjöf varðandi önnur réttindi sem eru í þjóðareign eða menn vilja hafa á almenningsvettvangi, annaðhvort sem eign með beinu eignarhaldi eða með því að tryggja þjóðinni tekjur af nýtingu þessara réttinda. Þessa hluti geta menn tekið fyrir að mínu viti og eiga að gera slíkar athuganir. Menn geta líka látið athuga hvaða áhrif það hefur að varpa kostnaði í heilbrigðiskerfinu yfir á einstaklinginn, yfir á sjúklinginn. Það eru til erlendar rannsóknir á því sviði sem leiða það í ljós að af því leiðir ekki neinn sparnaður, þ.e. kostnaðarvitund einstaklingsins er ekki sú, í þessu tilviki í heilbrigðismálum, að þó að kostnaði sé velt meira og minna yfir á hann leiði það til þess að kostnaðurinn við þjónustuna í heild minnki. Þvert á móti leiðir þetta frekar til aukins kostnaðar miðað við þær athuganir sem fyrir liggja. Þetta getum við athugað líka hér innan lands.

Að skoða þetta form finnst mér eiginlega beina athyglinni að röngum hlut í málinu. Það er ekki að mínu viti skurðarpunkturinn í pólitískri umræðu hvort tiltekinn rekstur sé unninn af starfsmönnum hins opinbera eða starfsmönnum einkafyrirtækja. Ég held að það hafi enga þýðingu að gera athugun á því hvort það hafi verið betra að starfsmenn áhaldahúsa sveitarfélaga hafi verið starfsmenn sveitarfélaganna eða hvort verkið sé unnið af verktökum sem hafa sína starfsmenn í vinnu eins og snjómokstur og annað slíkt sem nú er meira og minna unnið af einkaaðilum. Ég held að það sé ekki mjög frjótt athugunarefni.

Ég held að það sé ekki mikill ávinningur í því að fara að stöðva t.d. þá þróun sem vonandi fer í gang að ríkið felli undir sjúkratrygginguna allt munnholið og tannbeinin sem tekið var undan sjúkratryggingunni fyrir nokkuð löngu með mjög slæmum áhrifum. Tannheilsu hefur mjög hrakað eftir að það gerðist. Eðlilegt er að ríkisvaldið beiti sér fyrir samningum við tannlækna um að veita öllum landsmönnum þessa þjónustu en það eru þá samningar um einkarekstur líklega eða jafnvel einkavæðingu samkvæmt skilningi þeirra sem flytja þetta mál og yrði þá lagst gegn því að það ætti sér stað á meðan þessi rannsókn færi fram.

Það hefur verið tekið upp á síðustu árum að heimila að einstaklingar geti hugsað um veikt fólk. Maki fær greiðslur úr ríkissjóði til þess að hugsa um veikan maka sinn heima hjá sér eða einhver sem á lögheimili með honum. Ef við rýmkum þetta ákvæði eins og við höfum lagt til, þingmenn Frjálslynda flokksins, þannig að það ætti við aðra einstaklinga en þá sem eiga lögheimili með hinum veika væri væntanlega litið á þetta sem frekari einkavæðingu og hv. þm. Ögmundur Jónasson mundi þá líklega telja þetta slæma þróun, en ég efast ekki um að hann teldi þetta góða þróun. Ég held að málið sem hann flytur beinist kannski ekki að nákvæmlega þeim þáttum sem ég held að hann vilji láta athuga. Ég held að menn þurfi svolítið að endursemja þennan texta til þess að fá fram athugun … (Gripið fram í.) Frjálslynda flokknum? Það er það, virðulegi forseti. Hins vegar er frammíkallandi formaður BSRB, það kannski kann að skýra að hann horfir á þetta mál bara frá þessum sjónarhóli.

Við eigum að ræða hér í þingsal og nefndum þingsins um pólitíkina, hvernig við ætlum að fara með auðlindir þjóðarinnar, ráðstafa réttindum til að nýta orkuna. Það eru pólitísk viðfangsefni sem við eigum að taka fyrir, við eigum ekki að leggjast gegn því að þeir sem munu nýta þessa orku eigi endilega að vera opinber fyrirtæki. Ég sé það ekki fyrir mér að það sé skilyrði framtíðarinnar að enginn megi nýta eða virkja hér á landi nema fyrirtæki eins og Landsvirkjun eða annað opinbert fyrirtæki. Það er ekki framtíðarsýnin. Það væri alveg jafnóskynsamlegt að mínu viti og að segja: Það má enginn nýta fiskveiðiauðlindina nema fiskiskip í eigu hins opinbera. Auðvitað dettur engum í hug að setja atvinnulífi landsmanna þær skorður til framtíðar litið. En við hv. þm. Ögmundur Jónasson kunnum að vera sammála um að það er óskynsamlegt að opna fyrir einkavæðingu inni í orkugeiranum áður en menn setja skynsamlega löggjöf um það hvernig afraksturinn af nýtingu auðlindarinnar skiptist.

Mér finnst, virðulegi forseti, rétt að tala fyrir því að menn beiti málinu meira inn á skýr pólitísk álitaefni en festi sig ekki í deilum eða afstöðu til rekstrarforma í tilteknum rekstri.