135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn ættu einmitt að skoða reynsluna af þessum samningi, vita hvernig til hafi tekist, athuga til dæmis hvernig gangi að manna Sóltún starfsfólki í samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir sem ekki er neinn þjónustusamningur við gagnvart ríkinu. Kannski er reynslan sú að það gangi betur að manna störf hjá Sóltúni en öðrum öldrunarþjónustustofnunum með svipuðum hætti og það gengur mun betur í Hjallastefnunni að fá fólk til starfa en á almennum leikskólum. Stundum virðist vera — þó að ég viti það ekki, því að ég hef þekkingu á því og það hefur ekki verið gerð úttekt á því — en stundum virðist sem betur gangi að manna og veita þjónustu ef formið er svolítið annað en hefðbundið ríkisform eða hið opinbera form. Við megum ekki alveg slá það út af borðinu eins og gert er í þessari þingsályktunartillögu. Það á einfaldlega að frysta það sem er á meðan verið er að athuga. Það er gengið út frá því að opinbera fyrirkomulagið sé betra. Það þarf að sanna hitt. En mér finnst nú margt í reynslunni, hvort heldur í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu, benda til þess að það sé ekkert einhlítt. Þess vegna er ekki skynsamlegt að hafa einhlíta afstöðu í því.

Skólar eru ekkert endilega verkefni ríkisvalds. Þeir hafa verið reknir í hundruð ára af einkaaðilum sums staðar í Evrópu. Menntun hefur gengið eftir kynslóðunum utan arma hins opinbera í gegnum aldirnar þannig að það er ekkert endilega sjálfskipað viðfangsefni ríkisins að reka skóla þó að það sé eðlilegt að það hafi tekið það að sér og hafi sinnt því að mörgu leyti vel vegna þess að þar koma menn þó fram tiltekinni pólitískri stefnu. Spurningin er: Geta menn ekki haldið áfram og komið með aðalatriðin í þeirri pólitísku stefnu fram þó að formið breytist?