135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:44]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar þau orð sem hér féllu hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni um sveltistefnu af hálfu hins opinbera eða ríkisvaldsins gagnvart einstökum stofnunum eða þjónustu er rétt að halda því til haga að á undanförnum árum og áratug hafa útgjöld til þeirra málaflokka sem við erum helst að ræða í þessari umræðu aukist gríðarlega að raungildi. Ég nefndi það hér fyrir bara nokkrum dögum úr þessum ræðustól að útgjöld til bæði heilbrigðismála og menntamála hefðu aukist að raungildi um tugi prósenta frá árinu 1997. Megnið af þeim rekstri er opinber. Og nú stöndum við frammi fyrir því, hv. þingmaður, að útgjöld til heilbrigðismála eru á Íslandi hvað hæst í öllum löndum OECD og þá sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og á sama tíma er íslenska þjóðin ein sú yngsta. Með öðrum orðum þá stöndum við frammi fyrir því verkefni hvernig við ætlum að tryggja þjóðinni sambærilega og betri þjónustu en við höfum núna í komandi tíð þegar þjóðin eldist og heilbrigði hennar þar af leiðandi versnar sem því nemur.

Ég tel að þess vegna verði menn að nálgast þetta umræðuefni fordómalaust. Þeir verða að varpa af sér klafa hugmyndafræðinnar og vera ekki bundnir við það að segja: „Ég tek bara ekki í mál einhverja ákveðna lausn.“ Þeir verða að skoða þetta einmitt pragmatískt og segja: „Þar sem hægt er að koma við og þar sem við getum fengið betri nýtingu á fjármagni, þar eigum við að gera það, þar eigum við að nota einkarekstur. Þar sem við getum það ekki þar gerum við það heldur ekki.“ Mér finnst að þetta eigi nálgast svona og tek undir með þingmanninum frá fyrstu ræðu hans að menn eigi að vera pragmatískir og það tel ég að við höfum verið.

Síðan vil ég segja örstutt um skólana að ég vek athygli á því að munurinn á Íslandi og Norðurlöndunum er sá að á flestum hinna Norðurlandanna, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, eru í kringum 10–12% grunnskólabarna í sjálfstætt reknum grunnskólum á meðan sambærilegt hlutfall á Íslandi er í kringum 1%. (Forseti hringir.) Það er til umhugsunar hvort þetta sé skynsamleg stefna sem við höfum rekið hér.