135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:59]
Hlusta

Þorvaldur Ingvarsson (S):

Herra forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu. Þetta hefur um margt verið merkileg umræða í dag en mér finnst hún hafa dreifst út um víðan völl. Það er alveg ljóst að við sjálfstæðismenn teljum að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sé hlutur sem geti verið af hinu góða. Við höfum mörg dæmi þess, og þau hafa verið nefnd hér af hv. þingmönnum, að sú þjónusta hafi skilað góðum árangri.

Það sem er verra er að hér hefur verið látið að því liggja að heilbrigðisstarfsmenn leiki þann leik að útskrifa fólk af sjúkrahúsum til að sinna þeim annars staðar. Við vitum að stórum hluta af heilbrigðisþjónustunni er sinnt af sérfræðingum, svo sem sjúkraþjálfurum, læknum og hjúkrunarfræðingum, sem hafa gert samninga um það við Tryggingastofnun ríkisins. Dylgjur sem þessar eru varhugaverðar.

Ég er þeirrar skoðunar að ef við horfum til framtíðar verði einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eitt af því sem þurfum að skoða og nota einfaldlega vegna þess að við fáum betri þjónustu og hún er hagkvæmari. Til þess að nefnd sem þessi geti skilað árangri þurfa menn að vita hvernig þjónustan er veitt í dag og hver gæði hennar eru. Þar þurfum við að byrja.