135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hæstv. iðnaðarráðherra vera haldinn miklu óöryggi hvað það varðar að hafa misst herinn úr landi. Ég hef lýst yfir fögnuði með það og ætla meira að segja að umbera það þó að eiginlega sé verið að þjarma að lýðræðinu með því að fara með bráðabirgðalög í gegn, sem á að heyra til algjörrar undantekningar, um að breyta innstungum og rafmagnstöflum í ákveðnum fjölda húsa á Keflavíkurflugvelli, að keyra bráðbirgðalög í gegn til þess.

Ég deili ekki þessu óöryggi hæstv. iðnaðarráðherra sem birtist einmitt á blaðsíðu 311 í fjárlagafrumvarpinu þar sem stendur Varnarmál. Það þola nú ekki einu sinni gamlir alþýðubandalagsmenn sem komnir eru í faðm íhaldsins sem var nú þeirra mesti ógnvaldur áratugum saman, heldur á núna að fara að stofna eigin varnarmálaskrifstofu og varnarmálaframlaga. Meðal annars er hér sótt um 100 millj. kr. framlag til viðbúnaðar á öryggissvæði, sótt er um 42 millj. kr. til heræfinga og sótt er um 30 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði erlendra herja sem eru í heræfingum á Íslandi.

Ég hélt að við hefðum alveg losnað við þennan bagga. En því miður. Þó að það hafi verið blessunarlega gott að vera laus við herinn af Keflavíkurflugvelli (Forseti hringir.) þá vildi ég að við hefðum borið gæfu til þess og styrk að vera alveg laus við hann en leggjast ekki aftur flöt (Forseti hringir.) fyrir honum eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera.