135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá vinkill sem hv. þm. Árni Johnsen kemur með á málið kemur kannski ekki beint þessum bráðabirgðalögum við en allt í lagi með það. Ég hygg þó að þingmaðurinn yrði var við ef hann væri með rakvélina sína sem stillt væri á 60 volt og setti hana síðan í samband við 110 volt eða 220. Ég hugsa að hann mundi verða var við það. Það er alveg sama hversu gott rafmagnið er menn mundu verða varir við það.

Ég endurtek að það er fagnaðarefni að þessar byggingar skuli vera komnar úr hernaðarnotum. Þarna þarf að ráðast í endurbætur þó að það sé gert með þessum bráðabirgðalögum eða þurfi staðfestingu með bráðabirgðalögum sem við höfum gagnrýnt hér, allir hljóta að gagnrýna það í sjálfu sér að þurfa að fara með mál með þeim hætti í gegnum þingið, ekki síst þar sem fullt tækifæri var til að gera það tveimur vikum fyrr, eða liðlega tveimur vikum fyrr á reglulegu þingi í vor, það hefði verið eðlilegt en þetta gengur nú svona fyrir sig.

Varðandi síðan eignarhaldið sem við komum að þá er það nú svo að meira að segja í fjárlagafrumvarpi næsta árs er verið að sækja um heimildir til að selja þessar eignir. Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við spurningunni: Í hvaða ástandi er verið að selja þessar eignir? Eru þær með gamla rafmagninu eða eru þær komnar með rafmagn sem uppfyllir kröfur íslenskra byggingarlaga, óháð því hvort rafmagnið geti verið gott eða slæmt eða tengingarnar? Það er svo mikilvægt að um það sé vitneskja. Ég vil svo bara ítreka að það er virkilegt (Forseti hringir.) fagnaðarefni að herinn er farinn og komi hann aldrei aftur.