135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:19]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðilegt innlegg í þessa umræðu. Eins og ég kom inn á í framsögu minni deili ég í sjálfu sér viðhorfum hans, það deilir enginn um það að þingið situr allt árið og þegar upp koma brýnar aðstæður þá er best að kalla þingið saman.

Hér voru einfaldlega afar sérstakar aðstæður, alþingiskosningum var nýlokið, sumarþing hafði nýlokið störfum og var farið heim. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ekki væri heppilegt að kalla þingið strax saman aftur en þetta mál yrði að leysa með þessum hætti og það kæmi inn á þingið strax á fyrstu dögum þess. Um leið og þing kæmi saman í haust væri hægt að leysa þetta svona. Það er aldrei eftirsóknarvert að þurfa að setja bráðabirgðalög en í þessu tilfelli var það nauðsynlegt fyrst ekki var vilji til að kalla þingið saman.

Aðeins um lög sem undanskilja öryggisreglur, þ.e. að víkja frá hefðbundnum reglum eins og þingmaðurinn talaði um áðan. Hér er það líka réttlætanlegt að mínu mati þar sem mjög sérstakar aðstæður eru uppi og einstakar. Þetta er yfirgefin herstöð sem verið er að taka í gagnið. Það er verið að taka hana í gagnið í áföngum og það er mjög brýnt að gera það sem fyrst en ekki eftir 4–5 ár þegar kannski væri búið að skipta út rafföngum og raflögnum. Þess vegna er hægt að víkja frá reglum í þessu tilfelli af því að talið er að ýtrasta öryggis sé gætt, og þótt þetta sé annað kerfi er það ekki endilega miklu verra kerfi, það er einfaldlega annað kerfi. Þetta var amerísk herstöð á íslenskri grundu með sitt sérstaka kerfi. Við erum að skipta því út, við gáfum Þróunarfélaginu þrjú ár til þess. Það gengur miklu hraðar en efni stóðu til þá, sem betur fer. Í það heila tekið stendur málið mjög vel þó að ég taki undir með hv. þingmönnum að best sé að þurfa aldrei að setja bráðabirgðalög. En svona stóð málið þá og það varð að leysa það til að koma húsnæðinu í gagnið.