135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir í aðfaraorðum bráðabirgðalaganna, með leyfi forseta:

„Raflagnir og rafföng, sem séu á svæðinu, uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum og því sé ljóst að skipta verði um raflagnir sem séu innan svæðisins.“

Það er niðurstaðan þrátt fyrir bráðabirgðalögin að það verður að skipta um þær. Það er niðurstaða ráðherra og niðurstaða Alþingis í löggjöfinni sem fyrir liggur að þetta sé ekki öruggt. Þess vegna tek ég svo til orða. Ef þingið eða ráðherrann teldi að þetta gæti verið svona áfram þá væri auðvitað lagt til að þetta yrði svona áfram, þá væri ekki verið að gera kröfu um að skipta um. Hættan að mínu mati liggur ekki í því að kerfið er á lægri spennu. Hættan er sú að í íbúðunum mun búa fólk sem er vant hinu kerfinu og er með tæki og búnað sem hefur verið stilltur miðað við það. Það að vera með tvö kerfi í gangi er það sem ég hygg að sé skýringin á því að menn telji að þetta skapi hættu og því nauðsynlegt skipta um.

Ég vil samt segja, virðulegi forseti, að þetta er ekki mitt sérsvið þannig að ég tel mig ekki besta manninn til að útskýra þetta tæknilega.