135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

verslunaratvinna.

66. mál
[18:33]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má í sjálfu sér taka undir prinsippin sem fram komu í ræðu hjá hv. þingmanni sem hefur talað fyrir frjálsræði og frelsi einstaklinga á öllum sviðum í mörg, mörg ár. Nú er það einu sinni svo að við setjum takmarkandi reglur á hinum ýmsu sviðum til að vernda frelsi einstaklinganna á einhverjum öðrum sviðum. Við setjum takmarkandi reglur um húsnæðisviðskipti, bílaviðskipti, viðskipti með skepnur, eins og þingmaðurinn talaði um áðan, og ef hann hefði farið að ræða um útflutning hrossa þá gilda þar mjög stífar reglur, um nákvæmlega það sem við erum að tala um hér, þ.e. ættarsöguna, foreldra o.s.frv., mjög stífar reglur.

Auðvitað er best ef markaðurinn bregst við slíkum vanda, sem kom upp fyrir nokkrum árum, með því að setja sér slíkar reglur sjálfur. Það er lang-, langbest og hefði verið óskandi að hann hefði gert það og einhvern veginn unnið gegn þessu meini eða hættunni sem steðjar að honum. Þess vegna er þetta opinbera inngrip á ferðinni núna af því að við erum að freista þess með takmarkandi reglum sem vissulega hafa áhrif á hið algjöra frelsi á þessum markaði.

Það er líka ófrelsi eins að kaupa falsaða vöru ef það er engin neytendavernd gegn fölsuninni eins og okkar ágætu heimspekingar sem mest fjölluðu um frelsið, t.d. John Stewart Mill, John Locke og fleiri bentu á, þ.e. réttlætingin fyrir reglusetningu sem takmarkar frelsi eins er að vernda frelsi annars. Við erum því í sjálfu sér þarna að ná fram nauðsynlegu markmiði sem er að sporna gegn umfangsmikilli fölsun á verkum frægra meistara sem varpa rýrð og óstöðugleika og ókyrrð á listamarkaðinn í heild sinni. Það er aldrei ákjósanlegt að grípa inn í með einhverjum íþyngjandi eða takmarkandi reglum en stundum er nauðsynlegt að gera það og mér finnast þessar reglur nú býsna mildar. Það eru engin viðurlög, það er verið einfaldlega að kalla eftir eigendasögu eins og hún liggur best fyrir.