135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

umferðarlög og vátryggingastarfsemi.

76. mál
[18:36]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, og lögum um vátryggingastarfsemi.

Tilefni og tilgangur þessa lagafrumvarps er innleiðing tilskipunar sem hér er vísað í um breytingu á lögum um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja. Tilskipunin, sem almennt gengur undir heitinu „fimmta tilskipun um ökutækjatryggingar“, var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 7. júlí 2006. Samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar átti að hafa verið búið að innleiða hana eigi síðar en 11. júní 2007 en vegna þess hve vorþingið stóð stutt reyndist hins vegar ekki unnt að standa við þau tímamörk og þess vegna er málið komið núna á haustþingi og fresturinn í sjálfu sér runninn út.

Í tilskipuninni eru ákvæði sem gera auknar kröfur um vernd tjónþola sem verða fyrir tjóni af völdum vélknúins ökutækis, þannig að þetta er mikilvæg tilskipun í sjálfu sér og eykur neytendarétt í landinu gangi hún fram og er hluta þessara ákvæða þegar að finna í íslenskri löggjöf. Í frumvarpinu eru því eingöngu tillögur um lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til að aðrir hlutar tilskipunarinnar verði innleiddir.

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera nánari grein fyrir þeim ákvæðum fimmtu tilskipunarinnar sem kalla á lagabreytingar og eru tilefni þessa frumvarps sem ég mæli nú fyrir.

Í 4. mgr. 4. gr. fimmtu tilskipunar er mælt fyrir um breytingu á ákvæði í þriðju tilskipun þess efnis að vátryggingartaki skuli hvenær sem er eiga rétt á að óska eftir yfirlýsingu eða vottorði frá vátryggingafélagi um skaðabótakröfur sem varða vátryggt ökutæki eða um að ekki sé um slíkar kröfur að ræða. Yfirlýsingin skal ná til fimm ára og vátryggingartakinn skal fá yfirlýsinguna í hendur innan 15 daga frá því hann setti fram beiðni um hana. Það kemur fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar að rökin fyrir ákvæðinu séu þau að aðili, sem óskar eftir að kaupa nýja vátryggingu í öðru vátryggingafélagi, eigi að hafa möguleika á því að færa sönnur á tjónasögu ökutækisins samkvæmt fyrri vátryggingarsamningi.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. umferðarlaga setur viðskiptaráðherra reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, þar á meðal um skyldu vátryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra eða óþekktra ökutækja. Það skal lagt til að þessi heimild verði rýmkuð þannig að ráðherra geti sett reglur um skyldu vátryggingafélaga til að gefa vottorð með upplýsingum um skaðabótakröfur sem varða vátryggt ökutæki eða að ekki sé um slíkar kröfur að ræða. Á grundvelli þeirrar heimildar er síðan unnt að setja reglur um vottorðagjöfina í tiltekinni reglugerð.

Í 5. mgr. 4. gr. fimmtu tilskipunar er enn fremur kveðið á um breytingu um að upplýsingamiðstöð, sem viðurkennd er í samræmi við 4. tilskipun (á Íslandi Alþjóðlegar bifreiðatryggingar sf.), skuli veita upplýsingar, sem nefndar eru í tilskipuninni, til sérhvers sem átt hefur hlut að umferðarslysi sem vátryggt ökutæki veldur. Þar með er fellt niður skilyrðið um að tjónið hafi orðið í öðru ríki en heimaríki tjónþola.

Sú tilskipun mælir fyrir um aukna möguleika á aðgangi tjónþola, vátryggingafélags hans eða lögmanns að grundvallarupplýsingum sem eru nauðsynlegar fyrir meðferð tjónamáls. Tilskilið er að þessar upplýsingar skuli í ríkum mæli liggja fyrir í rafrænu formi á miðlægri skrá í hverju aðildarríki og vera aðgengilegar þeim aðilum máls sem um þær biðja.

Til grundvallarupplýsinga má telja upplýsingar um skráningarnúmer ökutækis, hvernig vátryggingu er háttað, nöfn og heimilisföng, símanúmer þeirra sem hlut eiga að máli og tjónsstað ásamt upplýsingum í lögregluskýrslu eða tjónstilkynningu um aðdraganda tjónsatviks eða tjónsuppdrátt.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. b umferðarlaga skal ráðherra viðurkenna upplýsingamiðstöð til að aðstoða við öflun upplýsinga um vélknúið ökutæki sem valdið hefur tjóni og vátryggingu þess. Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (ABÍ) hafa verið viðurkenndar sem upplýsingamiðstöð, sbr. 21. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar og getur ráðherra sett nánari reglur um starfsemi hennar.

Í 3. gr. fimmtu tilskipunar er kveðið á um breytingu á annarri skaðatryggingatilskipuninni og breytingin felur í sér að vátryggingafélag getur notað útibú sitt eða dótturfélag sem er vátryggingafélag í öðru aðildarríki sem tjónsuppgjörsfulltrúa vegna starfsemi félagsins í ökutækjatryggingum.

Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir ákvæðum tilskipunarinnar og þeim hlutum hennar sem innleiða þarf með lagabreytingum og ég hef núna verið að stikla í gegnum, þeim hlutum sem þegar hafa verið innleiddir og þeim sem unnt er að innleiða með reglugerð. Þær reglugerðir eða reglugerðabreytingar verða ýmist gefnar út af viðskiptaráðherra eða, eins og gefur augaleið, samgönguráðherra.

Vegna þeirra ítarlegu umfjöllunar sem er í athugasemdunum með frumvarpinu tel ég ekki, virðulegi forseti, tilefni til að fara nánar yfir þetta hér og nú. Viðskiptanefnd mun fá málið til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu og fara að sjálfsögðu vandlega og ítarlega yfir þetta ágæta mál.