135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd fyrir þolendur heimilisofbeldis.

68. mál
[13:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar sem hefði þó mátt vera efnismeira. Mér sýnist á svari hæstv. ráðherra að ráðuneytið hafi hafnað þeirri hugmynd sem var í frumvarpinu sem vísað var til ríkisstjórnarinnar síðasta vor með því að við fáum að heyra hér að það frumvarp sem er í vinnslu og kemur til með að verða lagt fyrir þingið hafi ekki að geyma þau úrræði sem lagt er til að verði sett í lög í því frumvarpi sem vísað var til ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra leggur það síðan í hendur löggjafans og löggjafarsamkomunnar að ræða það þegar frumvarp hans lítur dagsins ljóst hvort tilefni séu til að fara aðrar leiðir. Ef ég skil hann rétt að það sé þá okkar sem hér sitjum að ákveða hvort úrræði það sem frumvarp okkar vinstri grænna fjallar um verði sett fram sem breytingartillaga við frumvarp ráðherrans.

Mér finnst þetta ófullnægjandi og ég vil að hæstv. ráðherra svari okkur á hvaða forsendum þeirri hugmyndafræði sem frumvarp okkar felur í sér er hafnað af ráðuneytinu. Hvers vegna eru ekki talin tilefni til þess að leiða í lög það úrræði sem þar um ræðir og hefur reynst afskaplega vel í nágrannalöndum okkar sem vörn þeirra sem eiga yfir höfði sér ofbeldi á heimilum sínum? Heimilin eru og eiga að vera griðastaður fjölskyldna. Það er ekki svo í öllum tilfellum. Ofbeldismenn ganga lausir og lögreglan hefur engin úrræði að öðru leyti en því að hún getur komið fórnarlömbum ofbeldismannsins í athvarf. Fjöldi kvenna og barna er flóttamenn í eigin löndum, sett í athvarf á meðan ofbeldismaðurinn fær áfram að hreiðra um sig á heimilinu þar sem ofbeldinu var beitt eða hótun um ofbeldi kom fram. Það eru þessi úrræði sem við viljum að lögregla hafi í hendi sér, og ég spyr: (Forseti hringir.) Hvers vegna er hæstv. ráðherra ekki sammála því?