135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd til handa fórnarlömbum mansals.

69. mál
[13:43]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér afskaplega mikið og alvarlegt vandamál og við þurfum að berjast gegn því, bæði þar sem það verður til, í upprunalöndunum, og líka að berjast gegn því í okkar eigin landi þar sem fórnarlömbin eru oft lögbrjótar. Við þurfum enn fremur að stuðla að endurhæfingu fórnarlambanna.

Í sumar sem leið heimsótti ég einmitt Albaníu til að kynna mér starf ÖSE í baráttu gegn mansali. Þar eru menn að gera góða hluti en vandamálin eru þau að fólk þar í landi hefur hvorki ákveðna þjóðskrá né heimilisfang þannig að það getur verið mjög erfitt að sanna að eitthvert fórnarlamb sem finnst í Vestur-Evrópu sé Albani yfirleitt, hvar það eigi heima og hvert eigi að snúa því til baka. Okkar verkefni er að hætta að gera þetta fólk að lögbrjótum.