135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mikil umræða hefur verið um íslenska tungu í samfélaginu og það er í sjálfu sér vel. Íslenskan er samofin menningu okkar og lífi og á einn stærstan þátt í því að gera okkur að þeirri þjóð sem við erum. Hún er sérkenni okkar og ég er viss um að hún hefur haft veruleg áhrif á sýn útlendinga á Ísland og íslenskt samfélag. Tunga okkar vekur forvitni útlendinga um okkur, líf okkar og aðstæður hér í norðurhöfum.

Við höfum eflst gríðarlega á síðustu árum og ég vona að við munum styrkja okkur enn frekar á komandi árum ekki síst á sviði þekkingar og vísinda. Þar skiptir íslensk tunga miklu máli. Henni, sem við eigum svo margt að þakka, eigum við að hlúa að.

Kannski vegna þess að það liggur í augum uppi að engir aðrir en við tala íslensku hefur ekki verið talin ástæða til að gefa henni sérstaka lagalega stöðu sem þjóðtungu okkar. En heimurinn er að skreppa saman og það er bráðnauðsynlegt að við lærum erlend tungumál sem mest og best, að börnin okkar hafi tök á góðri menntun í erlendum málum. En við verðum að átta okkur á því að ef við sinnum ekki okkar eigin tungumáli og kunnum ekki móðurmálið vel getum við ekki lært tungu annarra almennilega. Þegar stöðugt vaxandi hluti þjóðarinnar hefur annað móðurmál en við verðum við að sinna íslenskunni og passa að hún sé mikilvægt tól sameiningar fyrir alla sem hér búa.

Í því efni held ég, um leið og ég hvet hæstv. menntamálaráðherra í því verki hennar að efla kennslu bæði fyrir okkur sem höfum hana að móðurmáli og aðra, að það sé tímabært að setja ákvæði um íslenska tungu í stjórnarskrá.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra:

Hyggst ráðherra grípa til sérstakra aðgerða í því skyni að styrkja stöðu íslenskrar tungu? Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga?