135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:23]
Hlusta

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 14 um skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Bjarni Harðarson og Birkir Jón Jónsson. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að heimila skattaívilnanir vegna kostnaðar sem fyrirtæki leggja í vegna rannsókna og þróunar. Miðað verði við skilgreind og afmörkuð verkefni og ákveðið hámark sett á endurgreiðslufjárhæð hvers árs.“

Víða í nágrannalöndum okkar fjárfestir hið opinbera í nýsköpun og þróunarverkefnum með góðum árangri. Í dag veita 18 af 30 OECD-ríkjum einhvers konar skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar. Fjölmargar úttektir og kannanir sem gerðar hafa verið sýna að verulegur skortur er á stuðningi við fjármögnun nýsköpunar- og þróunarstarfa íslenskra fyrirtækja. Þá sýna tölur frá OECD að bein framlög bandarískra yfirvalda til rannsókna- og þróunarstarfs þarlendra fyrirtækja eru þreföld sem hlutfall af þjóðarframleiðslu samanborið við það sem hér þekkist.

Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu er m.a. að efla nýsköpun í atvinnulífinu sem leitt geti til efnahagslegra framfara og bættrar samkeppnisaðstöðu. Norðmenn breyttu skattalögunum sínum á þann hátt að lögaðilar sem stunda rannsóknir og þróun fengu heimild til frádráttar frá tekjuskattsstofni, allt að 20%, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í lögunum var lögð áhersla á að þeir sem nytu þessara heimilda stunduðu vel skilgreind og afmörkuð rannsókna- og þróunarverkefni með skýrum markmiðum um árangur.

Norðmenn hafa farið þá leið að fela rannsóknarráði Noregs að meta hvort verkefnin uppfylli skilgreiningu skattyfirvalda og jafnframt að meta hvort framtaldir kostnaðarliðir teljist viðurkenndur rannsókna- og þróunarkostnaður.

Þó að þingsályktunartillagan beri heitið skattaívilnanir þá er norska kerfið sem hér er lagt til að farið verði eftir í raun endurgreiðslukerfi sem veitir skattskyldum fyrirtækjum rétt til að fá endurgreiddan 20% kostnaðar vegna rannsókna og þróunarverkefna að tilteknu þaki. Skattkerfið nýtist í þessu skyni þannig að þau fyrirtæki sem greiða tekjuskatt fá afslátt en þau sem ekki greiða tekjuskatt fá endurgreiðslu. Kerfið er þannig óháð skattprósentu og þeim skatti sem fyrirtækin greiða. Þetta gerir kerfið sérstaklega áhugavert fyrir lítil og vaxandi fyrirtæki sem enn bera það mikinn þróunarkostnað að þau eru enn ekki farin að greiða beina tekjuskatta af rekstrarhagnaði.

Þingsályktunartillaga þessi er sérstaklega miðuð að því að bæta hag sprotafyrirtækja eða fyrirtækja með færri en tíu starfsmenn. Reynslan af kerfinu er sérstaklega góð í Noregi eins og áður hefur komið fram. Kerfið hefur komið mikilli hreyfingu á nýsköpunarstarf norskra fyrirtækja og verkefni þeirra hefðu ekki komist á legg án þessa stuðnings. Verðmæti fyrirtækjanna hefur aukist sem og samstarf við önnur fyrirtæki og stofnanir. Sérstaklega vil ég benda á það að 25% norskra útrásarfyrirtækja hafa nýtt sér kerfið.

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða hagvaxtar á Íslandi. Án nýsköpunar- og þróunarverkefna er hætt við að atvinnulífið verði einsleitara, samfélagið staðnaðra og viðkvæmara fyrir sveiflum. Á tímum mikilla sveiflna á gengi krónunnar og miklum mun á hagvaxtarstigi á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hefur því aldrei verið mikilvægara að efla rannsókna- og þróunarþátt fyrirtækja. Þannig er hægt að skapa fleiri stoðir undir atvinnulífið. Ég er viss um að umræddar ívilnanir muni sérstaklega gagnast nýsköpunarfyrirtækjum úti á landi.

Búa þarf atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði en jafnframt þurfa fyrirtæki stuðning fyrstu starfsárin til rannsókna- og þróunarstarfs. Sá stuðningur þarf að vera sambærilegur við þann sem veittur er fyrirtækjum í samkeppnislöndunum. Ég tel því að um afar mikilvægt mál sé að ræða og vona að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar. Ég tel viðeigandi að sú nefnd fjalli um málið en vil þó einnig benda á, þar sem efnisþáttur þessarar þingsályktunartillögu skarast dálítið við aðrar nefndir og gæti þess vegna átt undir menntamálanefnd, að hún verði einnig tekin til skoðunar í þeirri nefnd.

Ég vonast einnig til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu.