135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er sammála flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu um að mikilvægt sé að búa þannig atvinnuskilyrði fyrir atvinnulífið að það geti blómgast og dafnað. Hins vegar er spurningin hvernig það skuli gert og hvaða leiðir við förum. Við höfum að mörgu leyti tekið upp ákveðna hætti sem mér finnast óæskilegir, sem ég kalla velferðarkerfi atvinnuveganna. Þessi þingsályktunartillaga miðar að því sama, þ.e. að auka velferðarkerfi atvinnuveganna en spurningin er hvort það sé rétt og hvernig við viljum stýra málum.

Þannig er með fyrirtæki í þróun og rannsóknum að ef þróun og rannsóknir skila tekjum þá greiða fyrirtækin skatt. Af hverju skyldu þau ekki gera það ef þau koma upp arðsamlegri framleiðslu? Skili þróunin ekki hagnaði þá bera fyrirtækin ekki skatt. Af hverju ættu þá að koma til sérstakar skattaívilnanir? Síðan má spyrja: Er það eðlilegt að fjölga skattaívilnunum í þessu þjóðfélagi? Erum við ekki einmitt komin á þann stað að fara þarf fram heildarendurskoðun á skattkerfinu með tilliti til þess að fækka skattaívilnunum og helst að afnema þær og taka upp annað skattkerfi? Nú er svo komið að þeir sem minnst hafa fyrir sig að leggja eiga að greiða hlutfallslega mesta skatta. Það er ekki það sem á að stefna að varðandi skattkerfið.

Við leggjum hvað lægstu skatta á fyrirtæki í okkar heimshluta. Ég veit ekki hvernig skattheimtan og skattheimtuprósentan er í Noregi en ég hygg að hún sé nokkru hærri en hér án þess þó að hafa kannað það sérstaklega. En hvað sem því líður eru menn með mjög lága skatta á fyrirtæki og menn hafa talað um að jafnvel eigi enn að lækka skattheimtuna á fyrirtæki. Þannig hefur hæstv. forsætisráðherra talað. Hann lét þau orð m.a. falla á skattaráðstefnu í haust. Það kann vel að vera að að full ástæða sé til þess ásamt öðrum breytingum á skattalögum. En það að fjölga skattaívilnunum tel ég óráð, hvort heldur til þessarar starfsemi sem annarrar. Þvert á móti tel ég að við eigum að fara þá leið að fækka skattaívilnunum og líka að taka til endurskoðunar hina flóknu og víðtæku aðstoð sem við höfum tekið upp í velferðarkerfi atvinnulífsins, eins og ég kalla það. Það felst í margvíslegum útlátum ríkisins til margs konar rannsóknarstarfsemi, til ýmissa hluta sem þeir sem reka fyrirtækin með hagnaði njóta arðsins af en skattgreiðendur fá nánast ekki til baka. Það er miklu mikilvægara fyrir okkur alþingismenn að velta fyrir okkur hvernig megi stuðla að jafnræði í þessu þjóðfélagi.

Við höfum gert mikið til, og sú ríkisstjórn sem síðast sat gerði mikið til þess að bæta umbúnað fyrir atvinnulífið. Því verður ekki á móti mælt. En að taka upp sérstakar meðgjafir til viðbótar vekur spurningar um hvort við séum ekki komin í velferðarkerfi sem er umfram það sem er eðlilegt getur talist eða samrýmist jöfnuði skattborgaranna í landinu.

Ég tel að það hafi verið röng leið að hafa hér tvö virðisaukaskattsþrep. Ég hefði haldið að það væri mun betra og skilvirkara að hafa eitt virðisaukaskattsþrep og í raun sé ég enga forsendu fyrir því að hafa þau tvö. Það er einu sinni þannig að þegar við höfum tekið upp tvö þrep þá er aukin ásókn í að fjölga þeim vöruflokkum sem falla undir lægra virðisaukaskattsþrepið. Þegar menn fara í að beita slíkum aðferðum við skattheimtu að fjölga ívilnunum búa þeir til aðferðir fyrir menn til að geta smeygt sér undan skattheimtu. Þar með gera þeir kerfið ógagnsærra og valda fleiri vandamálum í þjóðfélaginu varðandi þessa mikilvægu lagasetningu. Menn stuðla þannig að auknum ójöfnuði í þjóðfélaginu. Það er ekki sú leið sem við viljum fara og ég veit að það vakir ekki fyrir flutningsmönnum. Það sem vakir fyrir þeim er að bæta umbúnað atvinnulífsins til að stuðla að sem öflugustu og virkustu atvinnulífi. Ég er sammála þeim um að vilja koma því að en ég tel það hins vegar ekki rétta leið með þeim forsendum að auka skattaívilnanir, fyrst og fremst á grundvelli þess að það ber að draga úr skattaívilnunum og hafa skattkerfið sem einfaldast og gegnsæjast þannig að menn geti áttað sig á því og við stuðlum að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu.