135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:34]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að fulltrúi Framsóknarflokksins skuli koma með þessa ágætu tillögu. Eins og kannski flestir vita þá er þetta tillaga sem Samfylkingin lagði fram á sprotaþingi í fyrra, sem sagt í febrúar síðastliðnum, og fékk verðlaun fyrir. Batnandi mönnum er best að lifa og við fögnum því að framsóknarmenn séu farnir að sjá ljósið í þessum efnum og farnir að taka okkar ágætu mál upp á sína arma. Við reyndum á síðasta kjörtímabili að fá framsóknarmenn til að taka eftir þessari tillögu. Það er hárrétt, sem hv. flutningsmaður sagði, að þetta skarast á við fleiri nefndir en eingöngu efnahags- og skattanefnd, þetta er líka mál sem iðnaðarnefnd gæti komið að.

Við ræddum þetta talsvert þegar við ræddum málefni nýsköpunar, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ætti að muna. Þá ræddum við talsvert málefni nýsköpunar á síðasta kjörtímabili vegna stofnunar Nýsköpunarmiðstöðvar. Í þeirri umræðu kom þetta mál ítrekað upp. Þá vildu framsóknarmenn ekki ljá máls á því en núna er það hingað komið.

Það er líka svolítið skemmtilegt að þetta er ekki eina málið sem um ræðir. Nú þegar Framsóknarflokkurinn er farinn að hugsa almennt um málefni en ekki eingöngu um hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig hefur hann tekið upp hvert málið á fætur öðru frá Samfylkingunni og því hljótum við að fagna. Má líka nefna að fyrir þinginu liggur sambærilegt frumvarp, sem hv. þm. og núverandi ráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, lagði fram í fyrra, um að 30% af námslánum ættu að breytast í styrki. Framsóknarmenn hafa nú tekið það mál upp og lagt fram frumvarp og er það vel. Ég segi enn og aftur: Batnandi mönnum er best að lifa.

En á umræddu sprotaþingi í fyrra kynnti Samfylkingin mjög ítarlegar tillögur um það hvernig hægt væri að byggja undir hátækniiðnaðinn á Íslandi. Við vorum með mjög ítarlega stefnu í þeim efnum. Þar á meðal var sú ágæta tillaga sem nú kemur fram í tillögu til þingsályktunar frá fulltrúum framsóknarmanna og var hluti af stórum pakka. Við teljum nefnilega gríðarlega mikilvægt að byggja undir hátækniiðnaðinn á Íslandi og nýsköpunina. Þar þarf margt að koma til.

Við lögðum meðal annars fram tillögu um að stórefla rannsóknar- og tækniþróunarsjóð og sú tillaga vann einnig til verðlauna á þinginu. Á sprotaþinginu lögðu framsóknarmenn fram ágæta tillögu um árlega nýsköpunarkeppni grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla með tilheyrandi þjálfun og undirbúningi fyrir nemendur og kennara. Það var áhugaverð tillaga en hún náði ekki í gegn. Það er gott að við erum komin inn á sömu braut, þingmenn í ólíkum flokkum, um það hvað best sé að gera fyrir hátækniiðnað og nýsköpun í landinu. Því hlýt ég að fagna.

Mig langar aðeins að fara efnislega í þetta mál. Ég er mjög á öndverðum meiði við það sem hv. þm. Jón Magnússon sagði rétt í þessu. Frá árinu 2003, frekar en 2002, hefur vöxtur hátækninnar í landsframleiðslunni stöðvast. Vöxturinn hefur stöðvast frá þeim tíma. Það tel ég verulegt áhyggjuefni. Ef eitthvað er ætti hann að vera á uppleið, það hafði hann verið sex til sjö ár þar á undan. Þá hafði vöxtur hátækninnar margfaldast. Það var þróun sem mér líkaði vel og Samfylkingunni líkaði vel. Hátækniiðnaðurinn á að vera meira en 4%, eða þar um bil, í landsframleiðslunni.

Það skiptir líka máli í þessu sambandi að vöxtur flottustu hátæknifyrirtækja á Íslandi fer ekki lengur fram á Íslandi, hann fer fram erlendis. Það er áhyggjuefni vegna þess að við eigum í bullandi samkeppni við framsýn ríki, Kanada og fleiri lönd, um þessi flottu nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki, hátæknifyrirtæki. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við spornum við þessari þróun, það er að flott íslensk hátæknifyrirtæki vaxi á erlendri grund en sjái ekki hag í því að vaxa á Íslandi. Hátækni fylgja mjög skemmtileg og fjölbreytt störf fyrir vel menntaða Íslendinga og hún er hvati fyrir íslenska námsmenn að fara t.d. í tækninám en við höfum verið á eftir nágrannaríkjum okkar í því. Hlutfall íslenskra námsmanna í tækninámi hefur verið lægra hér en í nágrannaríkjum. Það er sem betur fer að breytast og liður í því að hækka það hlutfall er auðvitað að hér séu spennandi störf á þessu sviði. Ég segi þetta við hv. þingmann, og það er gaman að eiga við hann samræður um þetta, vegna þess að þetta skiptir miklu máli.

Einn liður í þessu er sá að við komum til móts við fyrirtæki í þessum geira og séum samkeppnishæf í að halda þeim hér. Það tekur fyrirtæki sem eru að byrja að þróa vöru, nýsköpunarfyrirtæki, yfirleitt 10–15 ár, að því er talið er, að vaxa og þróa vöru sína og verða að fullvaxta fyrirtæki. Við búum við mjög hagstætt skattaumhverfi hér á landi fyrir þau fyrirtæki sem ekki eru í nýsköpunarþróun þar sem hagnaður þeirra fer eingöngu í það. Við þurfum að koma til móts við þessi fyrirtæki, gefa þeim færi á að vaxa og dafna hér á landi frekar en í útlöndum til að gefa íslenskum námsmönnum tækifæri og stuðla að því að þeir fái skemmtilegri og frjórri vinnu í framtíðinni við nýsköpun og hátækni á Íslandi.

En enn og aftur fagna ég því að við séum komin á sömu blaðsíðu í nýsköpunar- og hátæknimálum, þvert á flokka. Það gekk ekki nógu vel á síðasta kjörtímabili, menn fóru þá dálítið út og suður. En ég fagna því að framsóknarmenn séu komnir á sömu blaðsíðu og við samfylkingarfólk.