135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:41]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Vegna ummæla hv. 5. þm. Suðvest. vil ég segja, virðulegi forseti, varðandi vöxt hátæknifyrirtækja og spurninguna um það af hverju sá vöxtur hefur stöðvast: Menn verða alltaf að greina á milli þegar þeir eru að tala um epli og appelsínur. Menn verða alltaf að greina orsakirnar og átta sig á því hvort vandinn er af einum ástæðum eða öðrum. Það er nú einu sinni þannig að þau hátæknifyrirtæki, sem um er að ræða, hafa hér hvað hagstæðasta skattaumhverfið. Þau hafa eitt hagkvæmasta umhverfi sem atvinnulífi og nýsköpunarfyrirtækjum hefur verið búið. Þannig að menn verða þá að reyna að finna rétta skilgreiningu, hana er ekki að finna í því að skattaumhverfið sé óeðlilegt eða óhagstætt. Það eru einhver önnur atriði sem valda þessu. Það er einfaldlega þetta sem ég vil benda á.

Ég er ekki að mæla á móti því að við förum jafnvel enn lægra niður með skattprósentu gagnvart lögaðilum. Það kann vel að vera að það væri mjög heppileg þjóðfélagsleg aðgerð að gera það.

Meginatriðið í því sem ég er að benda á er þetta: Við eigum ekki að bæta við skattaívilnunum. Við eigum þá frekar, t.d. varðandi sprotafyrirtæki, að fara aðra leið. Ekki taka þau í gegnum skattkerfið heldur frekar með því að veita gagnsæja styrki eða aðstoð. Og ég segi, og mæli af töluverðri þekkingu sem stjórnarformaður Iðnlánasjóðs til átta ára á sínum tíma: Það er nú einu sinni þannig að það skiptir máli að styrkirnir og aðstoðin fari á rétta staði. Hætt er við því að slíkar skattaívilnanir komi þá helst til hjálpar þeim sem minnst þurfa á að halda.