135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:44]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með að formaður iðnaðarnefndar, hv. 5. þm. Suðvest., styður þetta mál sem flutt er af þremur framsóknarmönnum og er mér ekki algerlega ókunnugt. Í tíð minni í iðnaðarráðuneytinu voru unnar tillögur til þess að bæta rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja.

Ég náði því miður ekki með þær tillögur alla leið nema að litlu leyti þar sem það strandaði á stuðningi frá Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin var hins vegar mjög útsmogin. Hún notaði þessar tillögur sem sínar á sprotaþingi og fékk verðlaun fyrir tillögurnar mínar. Það var nú ekki öðruvísi en þetta. Nú kemur hv. þingmaður hér og ber sér á brjóst og talar um að batnandi mönnum sé best að lifa o.s.frv.

Miðað við það sem komið hefur fram í máli hennar vænti ég þess að henni gangi betur en mér að fá sjálfstæðismenn inn á þessar tillögur og hugmyndir. Þær eru virkilega áhugaverðar. Það hefur sýnt sig hjá mörgum þjóðum, ekki síst Norðmönnum, að þær geta skipt sköpum. Þetta snýst um það að breyta rannsóknum í störf og auka þannig fjölbreytni í atvinnulífinu. Maður hélt að allir gætu verið sammála um að það væri mikilvægt. En hv. þingmaður var að mínu mati heldur drjúgur með verðlaunin á sprotaþingi.