135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:46]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega orðið dálítið hlægilegt að standa hér og tala um það hver átti hugmyndina að því kerfi sem Norðmenn eru búnir að nota með góðum árangri árum saman. Það er ekki hægt að segja að hugmyndin komi frá Íslandi vegna þess að þarna er verið að endurnýja hugmynd að kerfi sem Norðmenn hafa notað með góðum árangri árum saman og Kanadamenn líka í vissum hlutum þess lands. Það er hálfhlægilegt ef hv. þingmaður, fyrrverandi iðnaðarráðherra, hefur eytt löngum tíma í að finna þá tillögu upp á sínum tíma í ráðuneytinu. Er það annars svo sem vel.

Virðulegi forseti. Það sem mér þykir dálítið merkilegt og ég hefði kannski líka viljað heyra frá hv. þingmanni sem vildi koma hér í andsvar er: Hvers vegna fóru þá þessar tillögur ekki hærra og hvers vegna tóku þáverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir og líka hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson ekki undir þegar við samfylkingarmenn tókum þetta mál ítrekað upp hér í þingsölum undir heitinu norska leiðin? Þetta er svo sannarlega ekki íslensk leið. Hvers vegna var ekki tekið betur í þessar tillögur þá? Það þætti mér vænt um að heyra vegna þess að það er ekki eingöngu hægt að kenna þáverandi samstarfsflokki framsóknarmanna um. Vissulega hafði þáverandi iðnaðarráðherra heildarstefnumörkun í þessum efnum á sinni könnu, hefði getað gert miklu betur og m.a. tekið undir málflutning okkar í þingsölum.

Ég held að ég nefni það aldrei of oft að það er líka merkilegt að þetta mál — og það er ekki eingöngu þetta mál sem birtist hér í þingsölum heldur líka 30% endurgreiðsla á námslánum sem er mjög áhugavert að skuli birtast hér. Er það kannski líka gömul hugmynd sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vann með í þau 12 ár (Forseti hringir.) sem hún var í meiri hluta með sjálfstæðismönnum?