135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég fór ekki með menntamál í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í þannig að ég hefði ekki komið fram með tillögur í sambandi við námslánakerfið. Hins vegar er þetta eitt af þeim málum sem við höfðum á kosningastefnuskrá okkar fyrir þessar kosningar.

Ég færði ekki umræðuna niður á það plan sem hún er því miður komin á núna, umræða um þetta góða mál. Það var hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sem gerði það. Mér finnst hún svolítið blaut á bak við eyrun í þessu nýja stjórnarsamstarfi ef hún er að finna að því við mig að ég skuli ekki hafa tekið undir með Samfylkingunni á síðasta kjörtímabili þegar hún flutti hér ágætar tillögur. Ég held að hún eigi eftir að læra dálítið inn á það að starfa með stjórnmálaflokki í ríkisstjórn. Við skulum bara tala saman þegar líður á kjörtímabilið og átta okkur á því þá hvort það verði ekki komið annað hljóð í strokkinn.

Það var annað sem hv. þingmaður nefndi hér sem mér fannst óþarfi, hún fór að tala um hagsmunagæslu, að við værum komin út úr hagsmunagæslunni, framsóknarmenn, og farin að sinna góðum málum eins og því sem hér er komið fram. Hver er í hagsmunagæslu þessa dagana ef ekki Samfylkingin? Hún hefur bókstaflega notað öll tækifæri í öllum hugsanlegum nefndum þar sem hún hefur yfirráð og hent út framsóknarmönnum og inn skulu samfylkingarmenn. Ég held að það sé ekki til undantekning. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Hins vegar skal ég minna á eitt, að í tíð (Gripið fram í.) Framsóknarflokksins í ríkisstjórn gengum við svo langt gagnvart stjórnarandstöðunni og Samfylkingunni að við meira að segja, og ég beitti mér fyrir því, samþykktum að Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, yrði formaður í þingnefnd sem stjórnarandstæðingur. (Gripið fram í: Það var nú ég …) Því miður fór hann ekki vel með það vald sem honum var veitt (Gripið fram í.) í það skiptið og þess vegna (Forseti hringir.) varð ekki úr því frekar að stjórnarandstaðan fengi formennsku í nefndum. Þetta er nú munurinn á því hvernig þessir tveir flokkar starfa.