135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[14:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Mér finnst ákaflega ómaklegt af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að koma hingað og ásaka mig um að hafa með mínum litla þunga orðið til þess að menn hættu við þá tilraun sem hér hófst að frumkvæði núverandi hæstv. forsætisráðherra á þarsíðasta tímabili og fólst í að veita stjórnarandstöðunni þann trúnað að vera í forustu fyrir nokkrum nefndum á þinginu. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að efla eigi stjórnarandstöðuna á þinginu, bæði aðbúnað og sömuleiðis með því að sýna henni þann trúnað að hún stýri nefndum í takt við það hlutfall sem hún hefur á þinginu.

Það er rétt að mér var falinn sá trúnaður að vera formaður heilbrigðis- og trygginganefndar. Ég fór ekki illa með vald mitt. Ég fór með vald mitt í samræmi við það sem stjórnarskráin lagði á herðar mínar, þ.e. ég fór eftir sannfæringu minni. Sú krafa var gerð á mig af hálfu Framsóknarflokksins að ég tæki við skipunum frá fyrirtæki úti í bæ sem flokkurinn hafði tekið upp á arma sína. Það komu beinar fyrirskipanir frá þessu fyrirtæki um það hvernig ætti að haga löggjöf hérna og ég hafnaði því. Framsóknarflokkurinn gerði kröfu um það að ég tæki við leiðbeiningum fyrirtækisins deCodes um það hvernig hér ætti að setja lög um gagnagrunna. Ég fór eftir sannfæringu minni. Ég tók ekki boðum frá þessum hv. þingmanni og nótum hennar í ríkisstjórninni vegna þess að ég er öðruvísi en framsóknarmenn. Ég fer eftir því sem mér finnst. Það eru ekki fyrirtæki og kapítalistar úti í bæ sem ráða gjörðum mínum eins og þau hafa því miður allt of lengi og allt of oft gert varðandi Framsóknarflokkinn.

Þetta var mín sök og fyrir það var ég hýddur og settur á gálga og það var allt í lagi. Ég hafnaði því einfaldlega að fara eftir því sem Framsóknarflokkurinn vildi. Svo einfalt var það. Það varð til þess að þeirri tilraun var hætt. Ég sit eftir keikur, reynslunni ríkari. Ég þekki Framsóknarflokkinn eftir þetta. Ég þekki myrkrið í augum hans.