135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

14. mál
[15:01]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst eðlilegt að hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort svona kerfi gæti verið misnotað. Það er bara mjög eðlileg spurning vegna þess að við höfum oft rekið okkur á það þegar verið er að bora göt á skattkerfið að þá vilja þau stækka. Mér finnst þetta því eðlileg spurning en vil þó segja að miðað það hve margar af þeim þjóðum sem við berum okkur saman við innan OECD hafa tekið upp þetta fyrirkomulag, hlýtur að vera hægt að koma nokkurn veginn í veg fyrir misnotkun.

Talandi um einfalt skattkerfi, svo maður rifji áfram upp fortíðina, þá komum við fram með mjög róttæka tillögu í skattamálum þegar Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu á tímabilinu 1991–1995, þ.e. að vera bara með eitt skattþrep í virðisaukaskatti en ekki tvö, eins og hv. þm. Jón Magnússon nefndi áðan þegar hann taldi að það væri best að vera með eitt skattþrep. Þetta var tillaga okkar í stjórnarandstöðu þá, vissulega ekki vinsæl að öllu leyti en einmitt til að reyna að koma í veg fyrir misnotkun og hafa skýrt og skilvirkt kerfi. En af því að ekki hefur náðst fram að búa til þetta einfalda skattkerfi sé ég ekki af hverju við ættum einmitt núna að telja að ekki megi gera þær breytingar sem lagðar eru til með þeirri tillögu sem er hér til umfjöllunar vegna þess að þá séum við að bora of mörg göt á kerfið. Þetta er því miður dálítið götótt kerfi.