135. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007-2008.

5. mál
[15:50]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Fyrir ári síðan var ég á fundi með forstjóra Hafrannsóknastofnunar og öðrum starfsmönnum og þá spurði ég að því hvort fleiri en einn þorskstofn væru við Ísland. Þeir sögðu að það væri verið að skoða málið og það væri ekki hægt að fullyrða það enn þá og það þyrfti að rannsaka málið betur. Í fyrsta skipti í ár viðurkenna fiskifræðingar að það séu fleiri en einn þorskstofn við Ísland. Það segir dálítið sögu hafrannsókna á Íslandi að menn séu í fyrsta skipti í dag að átta sig á því að það séu margir þorskstofnar við Ísland.

Stærð á fiski er misjöfn eftir því hvar hann elst upp og þegar þessar nýju staðreyndir blasa við þá er t.d. algjörlega út í hött að ætla að úthluta í einni tölu og stjórna þorskveiðum með einni tölu í marga þorskstofna. Við búum nefnilega við það að við erum sums staðar að vannýta stofna og hugsanlega að ofnýta stofna á öðrum svæðum. Þetta er dálítið merkilegt í mínum huga og segir okkur hvað við vitum lítið um fiskinn í sjónum, hvað vitneskja okkar er lítil. Þess vegna er full ástæða til þess fyrir okkur, sérstaklega alþingismenn, sem hafa um þau mál að segja hvert peningarnir fara, að hleypa öðrum aðilum að í rannsóknir. Við þurfum að hleypa einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum í að rannsaka svæði eða ákveðnar tegundir á svæðum. Það er mjög af því góða ef það getur orðið og við fáum meiri samkeppni í rannsóknir, við sitjum ekki uppi með eina ríkisstofnun eins og kannski Laddi mundi kalla það — hún mundi falla inn í eina af stofnununum hans þegar hann er í sínum grínhlutverkum. Það er mikið mál fyrir okkur að rannsaka hafið betur en við höfum gert og við þurfum að veita meiri fjármuni til rannsókna á sem flestum sviðum. Við nýtum t.d. ekki ýmsar skeljar og ýmis dýr í hafinu sem við gætum nýtt betur en við gerum.

Sem betur fer er það tilfinning allra sem stunda sjó og hafa stundað sjó á síðustu árum að fiskiríið í vetur og aðstæður í hafinu séu með mjög góðu móti og það hafi ekki verið ástæða núna frekar en oft áður til þess að skera niður í þeirri ofsalegu hræðslu sem virtist vera í gangi. Það er ekki ástæða til að gera þetta og þegar hv. þm. Guðjón Arnar minntist á það áðan að það væri met af skyndilokunum vil ég leggja mikla áherslu á að í dag erum við að loka í 14 daga í hverri skyndilokun. Hér á árum áður var ekki lokað nema í sjö daga, það má eiginlega segja að það megi tvöfalda þær skyndilokanir sem eru í dag miðað við þær skyndilokanir sem voru fyrir nokkrum árum þegar menn eru að bera saman núið og það sem var fyrir kannski fimm eða tíu árum.

Þetta er auðvitað að stórum hluta margt mjög merkilegt og virðist vera að Hafrannsóknastofnun sjái alls ekki og geti alls ekki metið stöðuna rétt. Sama er hægt að segja um þetta blessaða togararall sem nánast er aðalaðferðafræði þeirra til að mæla fisk, þ.e. að taka 500 tog hér og þar hringinn í kringum Ísland og bera saman á milli ára. Það hafa verið verulega breytingar í hafinu, sjórinn hefur verið að hitna og lífríkið hefur allt færst til og það er það sem þarf að taka og skoða.

Við í Frjálslynda flokknum vildum fá fulltrúa þeirra, eða þá aðila sem stóðu að því að búa til þetta togararall 1984 og skipuleggja það á fund hjá sjávarútvegsnefnd svo að sjávarútvegsnefnd hefði tækifæri til þess að heyra þeirra mat á því hvernig til hefði tekist. En það var ekki orðið við því af því að þeir voru ekki í formlegum samtökum, þessir ágætu menn, en þeir voru nógu góðir á sínum tíma til að hanna byrjunina á þessu togararalli en ekki núna 20 árum síðar til að meta þá reynslu sem þeir höfðu af því að vera og vinna með togararallinu.

Það er auðvitað margt annað sem verður að taka tillit til þegar menn eru að skoða árangur af hafrannsóknum og hvernig Hafrannsóknastofnun vinnur. Þess vegna segi ég að hæstv. sjávarútvegsráðherra á auðvitað að taka tillit til fiskifræði sjómannsins, manna sem eru búnir að hafa það að atvinnu í 30, 40 ár, sumir jafnvel upp í 50 ár, að eltast við fisk. Þá er ég að tala um skipstjórnarmennina, það er ekki hægt að leggja háseta að jöfnu við skipstjórnarmann, það er ekki hægt að leggja vélstjóra að jöfnu við skipstjórnarmann, en skipstjórnarmennirnir sem eru að eltast við fisk vita hvort það er sól í dag eða rigning. Þegar Veðurstofan segir að það eigi að vera rigning en það er sól er ekki ástæða til þess að taka Veðurstofuna trúanlega. Það sama má segja um starfandi sjómenn, að þegar þeir sjá að á flestum svæðum sem þeir koma á til að veiða er fullt af fiski er ekki hægt að trúa því þó að Hafrannsóknastofnun segi að enginn fiskur eigi að vera í sjónum eða þá að það vanti nýliðun og annað í þeim dúr.

Það er þetta sem hæstv. sjávarútvegsráðherra á að taka meira tillit til og alþingismenn eiga líka að taka tillit til málflutnings sjómanna og gera meira úr honum.