135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að ræða einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi, sér í lagi fyrirhugaða einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja þar sem augljóslega er fyrir dyrum að koma henni úr eigu almennings í hendur einkaaðila og það fyrr en seinna.

Málið hefst með þeirri ákvörðun fjármálaráðherra að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja með þeim áskilnaði að aðrir opinberir aðilar megi ekki kaupa þann hlut, heldur verði það að vera einkaaðilar sem eignist hlut ríkissjóðs. Stefnan er mörkuð og undirstrikuð í ummælum hæstv. forsætisráðherra í þinginu á þriðjudaginn þar sem hann upplýsti að orkuréttindi þyrftu ekki endilega að vera andlag sölu Hitaveitu Suðurnesja. Það er nákvæmlega kjarni málsins, að það kemur vel til greina og er meira að segja að því stefnt að þessi réttindi fari úr höndum hins opinbera vegna þess að það er ekki endilega — ef maður færir ummæli hæstv. forsætisráðherra lengra — að þessi réttindi eigi að vera í höndum hins opinbera. Sá er kjarni málsins.

Staða málsins er sú að 48,6% í Hitaveitu Suðurnesja eru nú í eigu REI sem að meiri hluta til, þ.e. tveimur þriðju, er í eigu einkaaðila. Fyrir liggja annars vegar yfirlýsingar sjálfstæðismanna í borgarstjórn um að selja hlut borgarinnar í REI þannig að REI verði að öllu leyti í eigu einkaaðila og hins vegar yfirlýsing bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sjálfstæðismannsins Árna Sigfússonar, um að skipta Hitaveitu Suðurnesja í tvennt þannig að virkjanir í eigu fyrirtækisins og þá væntanlega réttindin verði færð í sérstakt hlutafélag sem verði að öllu leyti í eigu REI. Gangi þetta tvennt eftir sem sjálfstæðismenn hafa boðað verða öll virkjunarréttindi og virkjanir Hitaveitu Suðurnesja komin í einkaeigu innan skamms.

Ég vek því athygli á þessu, virðulegi forseti, og hlýt að spyrja samstarfsflokk Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinguna: Ætlar Samfylkingin að láta þetta gerast? Ætlar hún að sitja í ríkisstjórn og láta Sjálfstæðisflokkinn einkavæða orkulindir Íslands?