135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:47]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér hlýddum við á fyrstu ræðu talsmanns Vinstri grænna í ríkisfjármálum, að minnsta kosti þennan þingvetur, eða kannski ætti maður að kalla hann talsmann stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum. (Gripið fram í: Skuggaráðherra.)

Ég kem hér upp vegna málflutnings hv. þingmanns í ríkisfjármálum, fyrstu umræðu um fjáraukalög. Hann tiltók sérstaklega eitt mál, svokallað Grímseyjarferjumál. Það sem hann sagði í því máli, herra forseti, fannst mér einkennast af miklum popúlisma. Hvað var þingmaðurinn að leggja til? Hann var að leggja til að menn legðu til hliðar það skip sem hefur verið unnið að endurbótum á núna. Ef við umreiknum það í peninga þá erum við kannski að tala um svona 600 milljónir. Hann lagði til að því skipi yrði lagt og að keypt yrði nýtt skip. Hvað skyldi það kosta ríkissjóð þegar upp er staðið? Ég mundi skjóta á að það væri einhvers staðar í kringum 1 milljarð kr.

Ég spyr: Er það ábyrgur málflutningur talsmanns stjórnarandstöðunnar í ríkisfjármálum að leggja bara sisvona til eins milljarðs útgjöld, að hætta við skip sem er búið að fullvissa okkur um að muni þjóna hagsmunum Grímseyinga ágætlega, hætta við það og kaupa bara sisvona nýtt skip? Þetta er billegur málflutningur. Það er auðvelt að gagnrýna og það er auðvelt að standa í þessum ræðustól og gagnrýna og tala um allt sem miður fer. En ég gagnrýni það að á sama tíma og menn gera það skuli þeir ekki koma með neina sýn, enga sýn á ríkisfjármálin, ekki það hvað fyrir þeir standa, bara gagnrýni á gagnrýni ofan (Forseti hringir.) og það finnst mér popúlismi, hv. þingmaður.