135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga. Ég fór talsvert ítarlega í að gera grein fyrir þeim breytingum sem ég vildi sjá á þeim, hvernig þau eru unnin, þ.e. að það kæmu frumvörp til fjáraukalaga oftar á ári þannig að Alþingi hefði í raun fjárveitingavaldið og auk þess þá mundum við skoða það að fella niður þessar heimildargreinar þannig að þær kæmu inn í þingið til meðferðar hverju sinni. Ég fór nokkuð ítarlega yfir þetta mál hvað það varðar, herra forseti.

Varðandi Grímseyjarferjumálið þá var ég aðeins að spyrja hæstv. fjármálaráðherrann um hverjar væru núna tölurnar, hvað þetta kostar og hve mikið fjármagn hafi verið lagt í skipið. Hvað er áætlað að það muni kosta verði það fullbúið eins og væntanlega er verið að vinna að og hvenær verður það tilbúið? Ég spurði hæstv. ráðherra bara þessara þriggja einföldu spurninga vegna þess, eins og hv. þingmaður veit, að þetta verkefni er ekki á fjárlögum. En hvort það ætti að skoða það að fara að byggja nýtt skip þá var ég ekki í sjálfu sér að tala um það. (Gripið fram í.) Ég lagði það til í haust jú, að sá þáttur yrði skoðaður. En þessara þriggja spurninga var ég að spyrja hæstv. ráðherra sem hann vék sér undan að svara. (Gripið fram í: Ætlar þú ekkert að fara ...)