135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[11:55]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða um frumvarp til fjáraukalaga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt í gerð frumvarpsins og óska þeim til hamingju með að hafa komið með þetta fram á tilsettum tíma. Eins og kom fram í umræðu um fjárlögin í síðustu viku þá skiptir það þingheim miklu máli að við stöndumst tímaáætlanir og verkáætlanir við fjárlagagerð og fjáraukalagagerð. Hæstv. ráðherra og fjármálaráðuneytið, auk annarra ráðuneyta, hafa komið að þessu verki þannig að tímamörk hafa staðist og nú er frumvarpið komið hingað til umfjöllunar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir innihaldinu og þeim breytingum sem þar eru. Auðvitað má kannski segja sem svo í upphafi að sú breyting sem við sjáum í tekjujöfnuðinum upp á 56 milljarða, eða frá 9,1 milljarðs kr. tekjujöfnuði yfir í um 66 milljarða, sé mikil og í framhaldi af því tók hv. þm. Jón Bjarnason, talsmaður Vinstri grænna í ríkisfjármálum, upp umræðu um þjóðhagsspá og forsendur fyrir fjárlögum þessa árs og þar með talda þá breytingu sem boðuð er nú í frumvarpi til fjáraukalaga.

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði hv. þingmanni og fór nokkuð yfir þá hluti líkt og við gerðum í síðustu viku þegar við ræddum frumvarp til fjárlaga. Hins vegar hefur fjármálaráðuneytið mætt á fund fjárlaganefndar og farið yfir haustskýrslu sína. Ég vil ítreka að mjög margt athyglisvert kom þar fram og ekki hvað síst sá samanburður sem fjármálaráðuneytið sýndi í samanburði við aðrar spár eins og hæstv. fjármálaráðherra vék að. Spáin sem fjármálaráðuneytið gengur út frá hefur verið ein sú besta, eigum við ekki að segja, í samanburði við aðrar spár ef við tökum tillit til meðaltals. Vissulega getur menn alltaf greint á um hvaða spá sé best hverju sinni.

Hins vegar er öll áætlanagerð eins og þessi flókin. Greiningardeildir bankanna hafa lent í því sama og OECD hefur lent í því sama. Ég er alveg klár á því að þótt Þjóðhagsstofnun væri enn við lýði og/eða efnahagsskrifstofa þingsins eins og hv. þm. Jón Bjarnason, skuggaráðherra ríkisfjármála, hefur boðað þá er ég alveg klár á því að ákveðin óvissa fælist alltaf í spá sem kæmi frá slíkri skrifstofu.

Ég vil hins vegar benda á, eins og ég gerði hér í síðustu viku, vegna þess ég sé hv. þm. Pétur Blöndal, formann efnahags- og skattanefndar, að það er hlutverk efnahags- og skattanefndar þar sem allir þingflokkar eiga aðkomu að fara yfir tekjugrunninn í fjáraukalögum og fjárlögum hverju sinni og því frumvarpi sem við erum með til umræðu. Ég hef ekki fundið fyrir öðru en að hv. þm. Pétur Blöndal vilji halda utan um þá vinnu þannig að þingmenn allir sem þar sitja hafi ríkt tækifæri til að koma að slíku. Nýlega hafa mætt á fund efnahags- og skattanefndar fulltrúar greiningardeildanna. Einnig hefur efnahags- og skattanefndin átt fund með Seðlabanka og stærstu lífeyrissjóðunum þannig að í efnahags- og skattanefndinni er mikil vinna einmitt til þess að undirbúa það álit sem nefndin mun væntanlega senda frá sér í ljósi þeirra áætlana sem fjármálaráðuneytið hefur lagt fram annars vegar í frumvarpi til fjárlaga og nú frumvarpi til fjáraukalaga.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú mælt fyrir frumvarpinu og ég ætla ekki að fara efnislega í einstaka liði frumvarpsins. Það liggur einfaldlega fyrir að við munum taka þetta til efnislegrar umræðu í fjárlaganefndinni og stefnt er að því að 2. umr. um fjáraukalögin verði 20. nóvember.

Þá vil ég leggja áherslu á það við þingheim allan að það er afar mikilvægt í jafnflókinni vinnu og þessari og jafnyfirgripsmikilli vinnu og þingið stendur frammi fyrir hverju sinni að við virðum þau tímamörk sem sett eru upp í verkáætlun fjárlaganefndar í samvinnu við fjármálaráðuneyti og forseta þingsins. Umrædd umræða, hvort heldur 2. eða 3. umr. fjáraukalaga og fjárlaga, er sett á starfsáætlun þingsins og allar breytingar sem kunna að verða á verkáætlun fjárlaganefndar raska þar af leiðandi umræddri starfsáætlun. Þar af leiðandi þýðir þetta að ráðuneyti og starfsmenn ráðuneyta svo og annarra stofnana þurfa að virða þau tímamörk sem við setjum þeirri vinnu.

Þar af leiðandi bíður fjárlaganefndar og annarra sem að koma mikið verk. Við höfum boðað það nú í upphafi þings í samráði við fjármálaráðuneyti og forseta þingsins að við viljum leggja megináherslu á þann hljómgrunn sem hefur birst í greinargerðum Ríkisendurskoðunar ár hvert um framkvæmd fjárlaga. Í ágústmánuði sendi Ríkisendurskoðun frá sér skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2006. Þann 10. ágúst sendi fjármálaráðuneytið til fjárlaganefndar yfirlit yfir ríkisreikninginn vegna ársins 2006 og fjallaði um einstök frávik þar. Samhliða þessu hefur fjármálaráðuneytið sent fjárlaganefnd reglulega yfirlit á undanförnum mánuðum, þann 13. júní síðastliðinn yfirlit yfir framkvæmd fjárlaga frá janúar til mars árið 2007 og 12. september yfirlit yfir framkvæmd fjárlaga fyrir janúar til júní 2007. Í kjölfar þessara yfirlita hefur fjárlaganefndin óskað eftir skýringum jafnt sem fjármálaráðuneytið hefur einnig gert hið sama og skýringar vegna rekstursins janúar til mars hafa komið fram frá öllum ráðuneytum. Nú er það okkar að skoða þær skýringar, meðan beðið er eftir skýringum vegna apríl, maí og júní, samhliða því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Hv. þm. Jón Bjarnason vék í lokin að málefnum Landspítalans. Sú stofnun er liður í fjárlögunum. Hann nefndi ákveðin frávik sem hafa komið fram í umræddum yfirlitum sem ég vék að áðan. Það kom skýrt fram á fundi fjárlaganefndar með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins að málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss væru í yfirferð í sérstakri nefnd og þar af leiðandi mundu þau verkefni verða lögð inn hér síðar. En það var fullljóst af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og einnig fulltrúa fjármálaráðuneytisins sem voru með okkur á þeim fundi að um er að ræða mjög stórt verkefni og miklar breytingar hafa verið á rekstrarumhverfi spítalans sem þurfa að sjálfsögðu að speglast í fjárlögum hverju sinni.

Ég held að þingheimur og ekki hvað síst hæstv. ráðherrar séu meðvitaðir um þetta stóra verkefni. Því vil ég einfaldlega segja í þessu eins og svo mörgu öðru að allur þingheimur og þingflokkar hafa tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri til þess að betur megi fara. Hér er ekki verið að ýta einhverju verki frá heldur fyrst og fremst að setja það í sérstakan farveg, enda er málið mjög stórt.

Að framansögðu óska ég eftir góðri samvinnu hér eftir sem hingað til við alla þingmenn í fjárlaganefndinni, meiri og minni hluta. Einnig óska ég þess að við getum unnið þetta í góðu samstarfi við framkvæmdarvaldið en um leið að hver og einn hafi tækifæri til að koma sjálfstæðri skoðun sinni á framfæri því þannig á þessi vinna að fara fram. Þó við höfum hugsanlega ólíkar skoðanir í einstaka málum, eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur svo iðulega nefnt, þá viljum við öll vinna faglega að þessu verkefni þannig að endapunkturinn verði okkur til sóma.

Þar af leiðandi vil ég ítreka að gagnrýni á forsendur þessa máls þarf að vera hóflega framsett. Ég þekki það sjálfur að vinna í umhverfi eins og þessu þar sem nauðsynlegt er að fara fram með forsendur jafnvel nokkrum mánuðum eða árum áður en við fáum, má segja, raunstöðu á verk. Mjög margar breytingar er því ekki hægt að sjá fyrir þannig að fyrstu áætlanir þyrftu kannski að taka breytingum. En þetta er einmitt það sem er verið að gera með frumvarpi til fjáraukalaga. Það er verið að reyna að bregðast við breytingum. Í þessu tilfelli er lagt til grundvallar mat fjármálaráðuneytis og hæstv. fjármálaráðherra og annarra ráðuneyta sem að verkinu koma og nú er það þingsins að leggja faglegt mat á þessar breytingar og taka þær til umfjöllunar.