135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[12:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða fjáraukann, fjáraukalögin fyrir árið 2007. Það er svo sem af nógu að taka ef menn vilja drukkna í smáatriðunum en ég ætla nú kannski ekki að gera það í þessari ræðu minni.

Í upphafi máls vil ég þó minna á að hér við 1. umr. fjárlaga ræddi ég nokkuð um það hver væri undirstaða fjárlagafrumvarpsins, hversu traust það væri eða ótraust eftir atvikum og átti um það nokkur skoðanaskipti við fjármálaráðherra. Ég vitnaði þar í greiningardeildir bankanna o.s.frv. þar sem talsvert ber á milli varðandi framsetningu fjármálaráðuneytis annars vegar og greiningardeildar bankanna hins vegar.

Ég ætla nú ekkert að orðlengja það mjög mikið en það er alveg ljóst að í fjáraukanum nú má sjá þess merki að fjárlögin fyrir árið 2007 eru ekki mjög áreiðanlegt plagg að því er varðar nokkra liði. Það er alveg ljóst að tekjustreymið á yfirstandandi ári er miklum mun meira en menn gerðu ráð fyrir þó að menn þurfi auðvitað ekki að kvarta undan því að hafa tekjur. Annaðhvort væri nú, menn hafa fundið þess stað að hafa fjármuni til ráðstöfunar, að hafa tekjur, því ekki er gott að ráðstafa því sem ekki er til. Þannig að í sjálfu sér er ekki hægt að gráta það þó að við fáum meiri tekjur.

En það er auðvitað skylda okkar sem erum að reyna að vinna í fjárlögunum, jafnt mín sem annarra, að reyna að hafa áhrif til þess að vera eins nálægt niðurstöðum sem vænta má og kostur er. Það var þess vegna, hæstv. forseti, sem ég ræddi þetta mjög í fyrstu ræðu minni um fjárlögin.

Hins vegar eru nokkur atriði í fjáraukalagafrumvarpinu sem mig langar til að ræða. Af því við höfum tekið nokkrar umræður um m.a. mótvægisaðgerðir hér í þingsal þá er kannski bara rétt að byrja á að skoða það svolítið.

Á bls. 66 er tafla í fjáraukalagafrumvarpinu um mótvægisaðgerðir. Til þess að vera ekki fletta þessu fram og til baka held ég að best sé að líta á þessa töflu og fara yfir hana í stuttu máli. Ég hef verið að reyna að flokka þetta niður fyrir mér með því hugarfari hvað við gætum í raun og veru tengt mótvægisaðgerðum, því ég verð var við að víða í frumvarpinu er verið að tala um að þetta og hitt teljist til mótvægisaðgerða. Ég held að það sé langbest að skoða bara töfluna á blaðsíðu 66 og bið þá sem áhuga hafa til andsvara um að hafa hana fyrir framan sig.

Þar er byrjað að tala um háskólana, Háskóla Íslands, framhaldsskóla almennt, framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi vestra o.s.frv. og svo símenntun og fjarkennslu. Þetta er liður í fjáraukalagafrumvarpinu upp á 178 millj. kr. Þetta er allt talið sem mótvægisaðgerðir. Ég fagna því vissulega að við séum að taka á í þessum efnum en ég er ekki endilega sammála því að þetta gildi allt sem mótvægisaðgerðir. Þetta er bara stefnumótun sem er verið að reyna að ýta undir um það að efla menntunarstig hér á landi og stuðla að frekari háskólamenntun og almennt að styðja við menntun í landinu. Það er af hinu góða en að flokka það allt saman sem sérstaka mótvægisaðgerð, tel ég ekki endilega rétt. (Gripið fram í: Vertu ekki svona neikvæður.)

Hæstv. forseti. Ég veit ekki af hverju hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni líður illa undan því þótt ég sé að reyna að fara yfir það í rólegri rökræðu hvað séu mótvægisaðgerðir og hvað séu ekki mótvægisaðgerðir. Ég vil nú biðja hæstv. ráðherra að sitja á strák sínum, eins og einhvers staðar hefur verið sagt. (Gripið fram í: Hvað stendur?)

Já, við skulum nefna t.d. eitt sem a.m.k. var búið að ræða hér lengi í þinginu og var flutt um þingsályktunartillaga á síðasta þingi. Þá var verið að tala um — og ég held að við höfum stutt það langflestir hér í þingsal á síðasta þingi — uppbyggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Er það svo, hæstv. forseti, að sú stefnumörkun sem ég held að menn hafi algerlega verið sammála um og tengdist m.a. því að tengja saman byggðirnar á Tröllaskaga, Fjallabyggð, teljist nú sérstök mótvægisaðgerð? Auðvitað mun hún gagnast sem slík en hún var ekki sett þannig af stað, hún var einfaldlega sett þannig af stað að þörf væri fyrir þennan skóla á svæðinu, sérstaklega þegar búið væri að efla samgöngur á milli þessara byggðarlaga.

Ég er bara að benda á þetta, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst að menn eigi ekki að setja þetta fram með þessum hætti, að skíra allt upp á nýtt af því að ríkisstjórnin þykist vera að taka mikið á í sambandi við byggðamálin og atvinnumálin og er ég þá ekkert að gera lítið úr því sem reynt er að gera. En ég segi enn og aftur að því miður er margt í þessum mótvægisaðgerðum sem ekki hittir á þá hópa sem mest verða fyrir skaðanum. Sjómenn, fiskvinnslufólk, útgerðaraðila, en tökum þá út fyrir sviga í bili.

Síðan er önnur aðgerð sem ég get alls ekki fallist á að eigi að heita mótvægisaðgerð. Í fjáraukalögunum er beðið um 50 millj. kr. til útvíkkunar svæða vegna togararalls, bæði á grunnslóð og djúpslóð. Ég álít það ekki sérstaka mótvægisaðgerð. Það hefur lengi verið þörf fyrir að takast á við það að efla þessar rannsóknir og endurskipa togararallinu með markvissum hætti. Sú gagnrýni hefur verið uppi meðal íslenskra skipstjórnarmanna fiskiskipa í áratugi að þessa væri þörf. Ég er bara að benda ríkisstjórninni á að þegar hún lætur þetta nú heita sérstaka mótvægisaðgerð þá passar það illa inn í umræðu undanfarinna ára. (Gripið fram í.) Já, það er nefnilega það.

Síðan eru nokkur atriði eins og félagsmál, Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóður, sérstakt átak í atvinnumálum kvenna til að auka svigrúm fiskvinnslufyrirtækja o.s.frv. — ég tek undir það, þetta eru mótvægisaðgerðir í þeirri stöðu sem uppi er. Sama má segja um flest það sem á eftir kemur í töflunni. Það má taka undir það að þær aðgerðir geti kallast mótvægisaðgerðir upp að ákveðnu marki þó að þær nái ekki utan um þann hóp sem niðurskurðurinn bitnar harðast á, sjómenn og fiskvinnslufólk. Það ber að taka því vel sem lagt er til en mér finnst að menn eigi að nota rétt orð um hlutina.

Í þessu sambandi mætti t.d. spyrja um það deilumál sem kom upp áður en þing kom saman nú í haust og snertir Grímseyjarferjuna. Ætla menn í þeim lokahnykk að setja fram einhvern texta um að það sé mótvægisaðgerð að klára hana? Ég vænti þess að svo verði ekki. Nóg er nú samt. Úr því sem komið er óska ég þess eins að okkur takist að ljúka viðgerð ferjunnar og gera hana að skipi sem dugar Grímseyingum til margra ára. Ég vænti þess. Ég held að það geti vel tekist en það er alveg ljóst að mjög margt í þessu ferli hefur leitt til þess að fjárveitingar til verksins voru illa skipulagðar. Það er fjöldamargt sem að má finna í því sambandi.

Það er víti til varnaðar fyrir okkur sem vinnum að fjárlagagerðinni að horfast í augu við að það er ekki hægt að setja svona opnar heimildir inn í 6. gr. fjárlaga og vinna svo verkin á grundvelli þeirra árum saman. Ég minni á ræður sem hv. fyrrv. þingmaður, vinur minn Einar Oddur Kristjánsson, flutti oft í þessum ræðustól, þegar hann var að tala um Austurhöfnina og minnti á hvernig það verk hófst með texta í 6. gr. fjárlaga. Það er reyndar enn í fjárlögunum, liður 7.6, með leyfi forseta:

„Að greiða hlut ríkisins í undirbúningskostnaði Austurhafnar TR sem stofnað var á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg um rekstur og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.“

Ég held að við þurfum að læra af þessu, fjárveitinganefnd í heild sinni og fjármálaráðuneytið, að fara ekki af stað með mál með þessum hætti og ef það er gert þá sé það strax sett inn í fjárlögin en ekki keyrt áfram á 6. gr. heimild.

Hæstv. forseti. Ég lét þess getið í ræðu fyrir nokkru að ég teldi að ekkert væri því til fyrirstöðu að ríkið notaði fjármuni sína með sem bestum hætti og þess vegna mætti horfa til þess að útvista verkefni, meðal annars á heilbrigðissviði. Við höfum alls ekki hafnað því í Frjálslynda flokknum en um það þarf að fara fram stefnumótun. Það þarf stefnumótun í þeim málum og þess vegna finnst mér þetta allt of opið. Ég sé víða í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögunum setningar um að það megi semja um þetta og semja um hitt. Mér sýnist að það sé allt hengt á liðinn á bls. 55 í fjárlögunum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. Samningar, sem fela í sér fjárskuldbindingar, skulu lagðir fyrir ráðherra heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.“

Þetta er galopin 6. gr. heimild um alls konar fyrirkomulag í heilbrigðisþjónustunni og ég er ekki sammála því að við vinnum þetta svona. Ég vara við því að við séum enn að halda inn á þá braut að sitja uppi með mál langt fram í tímann, mál sem eru svo galopin að tveimur ráðherrum er nánast lagt það í vald hvað þeir vilja gera við þá stefnumótun til framtíðar.

Í þjóðfélaginu er nú tekist á um orkuauðlindir landsins og við erum ekki aldeilis sammála um hvert stefnir. Ég held að við eigum að vanda okkur mjög þegar við erum að tala um það sem snýr að ríkisfjármálum og sölu ríkiseigna eða því sem við köllum að útvista verkefni, sem er náttúrlega allt annar hlutur en að einkavæða reksturinn. Í ljósi reynslunnar vil ég segja að við höfum verið minnt á það í fjárlaganefnd að vanda okkur vel í þessum efnum því að sporin hræða.

Þegar sú staða kemur upp að sjávarútvegsráðuneytið biður um sérstaka fjárveitingu vegna hvalatalningar set ég spurningarmerki við það. Ég hef alltaf talið að slíkt væri skipulagt með löngum fyrirvara og menn ættu að geta séð það fyrir. Ég er ekki sammála því að slík rannsókn þurfi að lenda á fjáraukalögum. Það hlýtur að vera hægt að sjá það betur fyrir. Fyrir Hafrannsóknastofnun er verið að biðja um mikla fjármuni til viðbótar því sem áður var og það kunna að vera rök fyrir því. Við erum vissulega í mjög breytilegu lífríki miðað við það sem áður var, miklum breytingum á hitafari sjávar og hafstraumum, og ég hygg að þeir peningar sem settir eru í að efla rannsóknir verði okkur til góðs.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er einnig verið að tala um samning við áhugamannasamtökin SÁÁ. Þar er ekki kominn á samningur og nánast er verið að afgreiða málin frá einu ári til annars. Ég held að enginn samningur sé kominn á fyrir næsta ár. Þetta er mjög mikilvæg stofnun í samfélaginu, sem snýr að vímuefnavörnum og áfengisvandamálinu, og mér finnst, og hef talað um það áður oft í þessum ræðustól, að samskipti ríkisins og þessara áhugamannasamtaka þurfi að komast í miklu fastara form en verið hefur á undanförnum árum.

Síðan vil ég nefna, hæstv. forseti, örorkuþáttinn, það er það sem er undir lið fjármálaráðuneytisins um jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða, talað er um að setja eigi í það 1.000 millj. Ég vil spyrja að því, ef einhver getur svarað, hvort ekki hafi verið stefnumótun til lengri tíma en eins árs að því er þetta varðar. Hæstv. fjármálaráðherra getur vafalaust upplýst mig um það. Mig minnti að gert hefði verið samkomulag við heildarsamtök á vinnumarkaði um að lækka kostnað lífeyrissjóðanna, sérstaklega þeirra sem höfðu erfiðustu örorkubyrðina með inngreiðslum til einhverra ára en ekki eins árs og þætti vænt um ef fjármálaráðherra rifjaði það upp. Ég hélt að gert hefði verið samkomulag til tveggja eða þriggja ára um að ná þessari byrði niður hjá þeim lífeyrissjóðum launamanna sem hafa langmestu og erfiðustu örorkubyrðina, en þær 1.000 millj. kr. sem hér eru merktar eru ætlaðar til þess.

Síðan langar mig að spyrja fjármálaráðherra um afskrift skattkrafna upp á 4 milljarða kr. Ekki það að ég ætli að fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann fari með nöfn einstaklinga eða fyrirtækja. Ég spyr einfaldlega: Hvaða greiningu hefur hæstv. ráðherra eða fjármálaráðuneytið á þessum skattkröfum sem verið er að afskrifa? Er þetta meira í einni atvinnugreininni en í annarri? Er þetta eftir landsvæðum? Það væri fróðlegt að heyra eitthvað um það því að hér er þetta afgreitt með einni tölu, hæstv. forseti.

Nú er tíma mínum að verða lokið og læt ég staðar numið að sinni.