135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

staðan í sjávarútvegi, kjör sjómanna og fiskvinnslufólks.

[14:01]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það fór eins og mig grunaði að ekki yrði mikið um svör varðandi nýjar eða öflugar aðgerðir fyrir þær tvær stéttir sem ég nefndi áðan og var að spyrjast fyrir um hvort stæði til að grípa til einhverra ráðstafana fyrir, þ.e. sjómanna og fiskverkafólks. Sérstaklega ollu mér vonbrigðum viðbrögð samfylkingarmanna, nýliðanna í ríkisstjórn, sem lengi vel töluðu háum rómi fyrir breytingum í fiskveiðistjórnarkerfinu en þar er annað hljóð núna.

Það er engin huggun í því sem hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi áðan fyrir sjómenn að vera nú loksins komnir með sams konar uppsagnarákvæði í kjarasamninga sína og aðrir. Ég get ekki séð að það leysi neinn vanda hjá fiskvinnslufólki í dag.

Ráðherrann nefndi áðan að verið væri að fara eftir ráðum reyndra skipstjórnarmanna um opnun veiðisvæða og ekki bara opnun veiðisvæða til að veiða ýsu heldur til að auka sóknina í smáýsu. Búið er að breyta reglugerðum um það hvað er smáýsa í dag og hvað er smáýsa á morgun, færa reglugerðina úr 45 sm ýsu niður í 41 og ég spyr: Hvaða fiskifræðilegu rök eru það? Hvaða fiskifræði býr þar að baki? Er kannski bara verið að fikta eitthvað í metrakerfinu? Er þetta jafnstór ýsa fyrir það? Ég vitna í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ýsu og hvernig á að byggja upp ýsustofninn fyrst ráðherra vill gjarnan fara eftir þeirri skýrslu:

„Undanfarin ár hefur ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miðast við meðalveiðidánartala 4–7 ára fisks fari ekki yfir 0,47. Hafrannsóknastofnun leggur það til að frekar verði horft til stærðar ýsu en aldurs við ákvörðun aflamarks til að ná fram skynsamlegri nýtingu stofnsins.“

Með öðrum orðum, að veiða ekki smáa ýsu, beina skal sókninni í stóra ýsu til að hægt sé að byggja upp stofninn. Á þetta þá ekki við um aðrar fisktegundir líka sem verið er að skera niður, t.d. ýsu, karfa eða ufsa, eða er þetta bara neyðaraðgerð (Forseti hringir.) sem gripið er til vegna þess að það er að renna upp fyrir ráðherra að fisksókn á Íslandi er komin að fótum fram og það er ekki orðið hægt að stunda fiskveiðar á Íslandi miðað við núverandi aðstæður?