135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:36]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða fjáraukalög og vorum á dögunum að ræða frumvarp til fjárlaga fyrir komandi ár. Ég ætla hvorki að ræða hér efni fjárlaga né heldur efni fjáraukalaga, ég ætla að ræða það sem vantar í hvort tveggja.

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar eru reistar mjög stífar skorður við fjárútlátum úr ríkissjóði. Þar er skýrt tekið fram að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Við köllum þessa lagaheimild fjárlög og svo eru sett fjáraukalög þegar nauðsynlegt reynist að greiða úr ríkissjóði fé utan fjárlaga eins og það mál sem nú er á dagskrá.

Í 29. gr. fjárreiðulaga eru þessar skorður nánar útfærðar og þar segir m.a. að ríkið og ríkisstofnanir skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma eignir sem þar eru upp taldar, m.a. fasteignir og aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa og ekki falla undir upptalningu sem þar er um að ræða, t.d. skip og flugvélar, söfn og fleira. Þar er líka tekið fram að með þessu ákvæði sé ekki verið að takmarka venjulegar rekstrarleigu.

Sem sagt þá er bannað að selja eða láta af hendi fasteignir og afnotarétt samkvæmt stjórnarskránni. Það skal afla heimilda hverju sinni þegar ríkið eða ríkisstofnanir láta af hendi eignir sem verulegt verðgildi hafa. Í 36. gr. fjárreiðulaga er þetta enn ítrekað, að óheimilt er að gefa eða afhenda eigur ríkisins án endurgjalds. Þetta tekur sem sagt ekki bara til sölu, þar sem endurgjald kemur fyrir, heldur tekur þetta líka til þess að eignir ríkisins séu afhentar án þess að fyrir komi endurgjald. Það skal sem sagt leita heimilda hverju sinni, lagaheimilda samkvæmt stjórnarskránni.

Hér er, virðulegi forseti, vandlega um hnúta búið af hálfu löggjafans. Ég sé í rauninni ekki hvernig hægt er að gera þetta betur. Það er þeim mun undarlegra að ráðamenn þjóðarinnar, hæstv. ráðherrar, skuli staðnir að því að hundsa þessi ákvæði. Að þeir séu staðnir að því, því miður, að sýsla með fé og eigur ríkisins eins og þær væru þeirra eigin án heimilda og jafnvel án fyrirvara um samþykki Alþingis.

Fyrir síðustu kosningar var þannig ausið úr ríkissjóði loforðum og skuldbindingum, jafnvel til margra ára fram í tímann. Ég hygg að vikan fyrir 12. maí síðastliðinn eigi eftir að reynast sú dýrasta á öllu liðnu kjörtímabili þegar allt verður talið. Þingflokkur Vinstri grænna hefur einmitt óskað eftir því að allt þar verði talið. Við höfum óskað eftir skýrslu um kosningavíxlana og ég vænti þess að þegar hún hefur litið dagsins ljós þá verði hún tekin hér til umræðu. Ég ætla því ekki að fara mörgum orðum um þessi kosningaloforð. Ég ætla að fjalla hér um eitt tiltekið mál, einn tiltekinn gjörning, sem hvergi er að finna í fjárlögum og heldur ekki á því þingskjali sem hér er til umræðu, frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007.

Þetta er, hæstv. forseti, samkomulag íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár. Þetta er samkomulag sem þrír ráðherrar undirrita, ráðherra fjármála, ráðherra iðnaðar og ráðherra landbúnaðar annars vegar og svo forstjóri Landsvirkjunar hins vegar. Eins og segir á forsíðu þessa samnings, þá fjallar þetta um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár. Hér er um að ræða 93% af öllum vatnsréttindum neðan Búrfells. Vatnsréttindi sem ríkið eignaðist með afsali Titan-félagsins sáluga, Einars Benediktssonar, á árinu 1952, 16. janúar 1952 nánar tiltekið.

Þetta samkomulag um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins á Þjórsá var undirritað 9. maí, þremur dögum fyrir kosningar í fullkominni leynd. Þessa daga þegar ráðherrar böðuðu sig í kastljósi fjölmiðla. Það var ekki hægt að opna svo blað eða kveikja á ljósvakamiðli öðruvísi en þeir væru þar með klippur og penna, að lofa fram í tímann. En þessi gjörningur þoldi ekki dagsins ljós. Honum var haldið leyndum. Það vissi enginn af honum, ekki heimamenn, ekki Alþingi, enginn.

Hulunni var svipt af þessum samningi á fjölmennum fundi iðnaðarnefndar Alþingis og umhverfisnefndar Alþingis í Árnesi, um miðjan ágúst síðastliðinn. Þar voru leiddir saman heimamenn, þ.e. fulltrúar sveitarstjórnanna vestan Þjórsár, sem hagsmuna eiga að gæta vegna fyrirhugaðra framkvæmda Landsvirkjunar við Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Þar voru líka samankomnir fulltrúar landeigenda og sumarbústaðaeigenda og fulltrúar Sólar á Suðurlandi og annarra náttúruverndarsamtaka, og síðan fulltrúar Landsvirkjunar.

Fulltrúi Sólar á Suðurlandi gerði athugasemd við það þegar talsmaður Landsvirkjunar á fundinum sagði að Landsvirkjun ætti nú nær því öll vatnsréttindin í Þjórsá. Hann spurði: Hvenær eignaðist Landsvirkjun þessi vatnsréttindi? Á ekki ríkið þau? Og smám saman var togað upp úr fulltrúum Landsvirkjunar sem þarna voru á fundi með fulltrúum iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar, hvernig í pottinn var búið og þessi samningur kom upp á yfirborðið. Með honum er verulegum verðmætum afsalað úr hendi ríkisins til Landsvirkjunar, eins og ég segi, án nokkurrar heimildar í lögum.

Spurningar hljóta að vakna, m.a. í ljósi spurninga sem umboðsmaður Alþingis sendi sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi og í Borgarfirði í gær vegna þess sem menn eru þar að sýsla með eigur almennings. Hvernig er hægt að afhenda einu fyrirtæki, fyrirtækinu Landsvirkjun, slík réttindi, fyrirtæki sem á að heita að starfi í svokölluðu samkeppnisumhverfi? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri það fyrir þingheimi hér á eftir hvernig á því getur staðið.

Þessi samningur felur það í sér að Landsvirkjun yfirtekur frá undirritunardegi, þrem dögum fyrir kosningar, nýtingarrétt allra vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar og yfirtekur auk þess réttindi ríkisins til nýtingar lands og landsafnota. Hvað skyldi það nú þýða? Þar er um að ræða réttindin til þess meðal annars að reisa stíflugarða, grafa skurði og reisa stíflur því að ríkið hafði með vatnsréttindunum, samkvæmt gamla Titan-samningnum, réttindi til að ráðstafa landinu í þágu þessarar nýtingar. Þetta á að heita tímabundið samkomulag til 15 ára. Hér segir að hafi Landsvirkjun ekki fengið virkjunarleyfi þegar 15 ár eru liðin frá undirritun þessa samkomulags gangi það einfaldlega til baka og réttindin fari aftur í hendur ríkisins.

Ég nefndi áðan að í fjárreiðulögum væri skýrt tekið fram að óheimilt sé að ráðstafa eigum ríkisins jafnvel þótt ekkert endurgjald komi fyrir. Ég hef heyrt þær varnir hafðar uppi um þetta samkomulag að hér hafi ekkert verið selt vegna þess að ekki hafi verið samið um neitt verð. Í samkomulaginu segir að endurgjald fyrir þessi réttindi skuli koma eftir að virkjunarleyfi er gefið út og skuli um það samið innan 90 daga eftir að virkjunarleyfi liggur fyrir — um endurgjald — og þá skuli það taka mið af öðrum samningum um vatnsréttindi. Þetta er eins og ég sagði áðan undirritað af þremur ráðherrum og forstjóra Landsvirkjunar, Friðriki Sophussyni. Það er athyglisvert vegna þess að hvergi er að finna heimildir fyrir þessum gjörningi.

Síðasta setningin áður en menn setja nafn sitt undir gjörninginn er þessi, með leyfi forseta:

„Í samræmi við framangreint rita fulltrúar samningsaðila í fullri heimild“ — í fullri heimild — „nöfn sín undir samkomulag þetta sem gert er í fjórum samhljóða eintökum, þremur fyrir íslenska ríkið og einu fyrir Landsvirkjun.“

Í fullri heimild hverra, virðulegi forseti? Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða fulla heimild er þetta? Hvaða fulla heimild er það sem hann og aðrir ráðherrar fyrri ríkisstjórnar töldu sig hafa til þess að afhenda öll vatnsréttindi neðan Búrfells á einu bretti til eins fyrirtækis, fyrirtækis sem á að heita á samkeppnismarkaði?

Hér er um mjög stórt mál að ræða. Þetta snertir miklar deilur sem eru uppi við Þjórsá vegna þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun áformar við þrjár virkjanir. Haldnir hafa verið fjölmennir fundir heimamanna, landeigenda og sumarhúsaeigenda og hafa þessir menn hlotið mjög góðar undirtektir við þeim varnaðarorðum sem þeir hafa haft uppi vegna þessarar framkvæmdar. Meðal annars telja menn sem búa í Flóahreppi mikla hættu á því að stíflur bresti og flóð geti orðið íbúum þar hættuleg í Suðurlandsskjálfta eða við aðra jarðskjálfta en þessar stíflur og þessi lón eru öll reist á mesta og virkasta sprungubelti landsins.

Ég spyr mig: Hvað gekk þessum ráðherrum til, að kippa stoðum undan samningsstöðu landeigenda sem eiga 7% vatnsréttinda í Þjórsá og margir hverjir hafa lýst því yfir að þeir ætli sér ekki að láta þau af hendi? Þessi gjörningur kemur algjörlega í bakið á þeim og algjörlega í bakið á sveitarfélögunum sem slíkum. Það hefur verið bent á að hér sé í raun um dulbúið eignarnám að ræða og þingmenn sem tjáðu sig um slíkt á síðasta þingi voru allir á einu máli um að eftir að svokallað samkeppnisumhverfi væri komið upp í raforkuöflun og -vinnslu á Íslandi væri óeðlilegt að veita eignarnámsheimild til þess að framleiða rafmagn fyrir eitt stykki álver.

Það var upplýst á þessum fundi, og ég get vitnað til umræðna sem urðu 22. febrúar á síðasta ári hér á Alþingi, en í þeim tók meðal annars þátt núverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, og þáverandi umhverfisráðherra. Allir þingmenn sem hafa tjáð sig um þessa hluti hafa verið á einu máli um að eignarnám komi ekki til greina. En þarna er um dulbúið eignarnám að ræða, það er verið að taka þessi vatnsréttindi og afhenda þau Landsvirkjun án þess að farið sé í formlegt eignarnám. Þessi gjörningur, virðulegi forseti, það er sama hvernig á hann er litið, stenst enga krítik.

Það var upplýst á fundinum í Árnesi að samningaviðræður hefðu staðið við Landsvirkjun frá því í nóvember 2006 sem hefðu endað með þessum hætti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að þingheimur var ekki upplýstur um þær samningaviðræður þegar málefnið var hér til umræðu 22. febrúar 2007, þegar verið var að ræða það hvernig ætti að afla Landsvirkjun þessara vatnsréttinda og landa, hvort mögulegt væri að gera það með eignarnámi? Og þingheimur sem tjáði sig var allur á einu máli um að það væri ekki hægt.

Við þingmenn Vinstri grænna óskuðum eftir því 22. ágúst sl. að ríkisendurskoðandi færi í saumana á þessu samkomulagi og léti í ljós álit á því hvort gerningurinn fengi staðist. Þær upplýsingar sem ég fékk í morgun frá skrifstofu ríkisendurskoðanda eru á þann veg að málið sé þar í vinnslu. Það kann vel að vera að við fáum að sjá þá niðurstöðu innan tíðar. Það kann líka vel að vera að það þurfi að fara sömu leið og í Reykjavíkurborg, búið er að stefna forsvarsmönnum þess gjörnings sem mest hefur verið til umræðu þar undanfarna daga, það getur vel verið að það þurfi að draga menn fyrir dóm sem afsala eigum ríkisins með þessum hætti. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti.

Ég nefndi áðan að þetta fór algjörlega fram hjá og á bak við allar sveitarstjórnir á svæðinu og heimamenn. Það er eitt atriði til viðbótar í þessum samningi sem ég vil vekja athygli á — og spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort mörg slík dæmi séu til — og það varðar jörðina Þjótanda. Jörðin Þjótandi er ein af þeim jörðum sem eru í þessari frægu 6. gr. á fjárlögum ársins 2007, ,,heimilt er að selja jörðina Þjótanda“ o.s.frv. Jörðin Þjótandi er inni í þessu samkomulagi, það er minnst á jörðina Þjótanda. Það er gert þannig — hún er í Flóahreppi — að landbúnaðarráðuneytið lýsir því yfir að það sé reiðubúið að taka upp samningaviðræður við Landsvirkjun í þágu þeirra virkjunarframkvæmda sem fyrirhugaðar eru, eins og þar segir, með leyfi forseta: „þar á meðal þær hugmyndir Landsvirkjunar að koma upp upplýsingamiðstöð á jörðinni um vatnasvæði Þjórsár og virkjanir í ánni“.

Flóahreppur, sveitarfélagið sem þessi jörð er í, óskaði eftir því að fá að kaupa þessa jörð í ljósi þess að heimilt var að selja hana samkvæmt fjárlögum. Hún var aldrei auglýst. Henni var leynilega afsalað til Landsvirkjunar með þessu plaggi hér. Svo kom svarið til sveitarfélagsins: Nei, landbúnaðarráðuneytið getur ekki látið sveitarfélagið neyta forkaupsréttar á grundvelli þess samkomulags sem hér er.

Herra forseti. Ég hef varið tíma mínum hér við umræður um fjáraukalög til þess að fjalla um gjörninga sem hvergi finnst stafur fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég fann ekki annan stað betri í dagskrá þingsins en þennan. Ég tel að þetta hafi verið vafasamur gerningur í meira lagi og tel mikinn vafa leika á að hann standist lög. Í því ljósi væri æskilegt að vita í hvers umboði Landsvirkjun er nú að semja við heimamenn þar eystra.