135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að blanda mér aðeins í þessa 1. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2007 sem fjármálaráðherra hefur mælt fyrir og hefur nú þegar verið talsverð umræða um.

Það kemur hér fram að veruleg frávik séu í þessum fjáraukalögum frá samþykktum fjárlögum fyrir árið 2007. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að mesta breytingin sé fólgin í því að heildartekjur ríkissjóðs verði um 72 milljörðum hærri en reiknað var með í fjárlögum. Það eru að sjálfsögðu jákvæð tíðindi fyrir ríkissjóð að hann skuli rekinn með myndarlegum afgangi en á því máli eru alltaf fleiri hliðar sem vert er að skoða.

Í fyrsta lagi bíða fjölmörg verkefni þess að fá úrlausn og væntanlega eru þá til fjármunir til að takast á við þau. Það eru verkefni í menntamálum, heilbrigðismálum, félagsmálum, umhverfismálum, jafnréttismálum o.s.frv. Það hlýtur líka að verða umræðuefni hversu illa áætlanir ríkisins standast þegar á hólminn er komið.

Við höfum orðið vitni að talsverðri umræðu um ýmislegt sem hefði mátt fara betur í þessu samhengi. Mér nægir þar að vísa til umræðunnar um Grímseyjarferju sem talsvert hefur verið til umfjöllunar á hv. Alþingi. Ég fæ ekki séð að því máli sé nándar nærri lokið eða að þar séu öll kurl komin til grafar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í fjárlaganefnd annars vegar og í samgöngunefnd hins vegar, höfum óskað eftir því í bréfi til hæstv. samgönguráðherra að það verði skoðað hvort til greina komi, hvort það geti verið hagstætt fyrir ríkið og málið í heild, að endurskoða þau áform öll og jafnvel ákveða að fara í nýsmíði á ferju, ferju sem væri sérstaklega smíðuð fyrir þær þarfir sem hún á að sinna í samgöngum milli Grímseyjar og lands. Út af fyrir sig er það ekki afdráttarlaus afstaða okkar að það beri að gera það en við viljum að látið verði á það reyna og kannað til þrautar hvort það kunni þegar upp er staðið að vera skynsamlegasta leiðin og það skip sem nú er í undirbúningi að taki við þessu hlutverki verði þá selt. Hæstv. samgönguráðherra hefur nú svarað þessu erindi okkar og segir þar meðal annars, með leyfi forseta:

„Samgönguráðherra fór þess á leit við Vegagerðina að hún skipaði þegar í stað sérstaka verkefnisstjórn sem hafi það markmið að ljúka verkinu og gæta hagsmuna ríkissjóðs“ — ég vek athygli á þessu, gæta hagsmuna ríkissjóðs — „samanber bréf ráðuneytisins til Vegagerðarinnar, dagsett 14. ágúst síðastliðinn. Hlutverk hennar er að greina stöðu mála og vinna nákvæma verkáætlun þar sem meðal annars koma fram þeir verkþættir sem vinna þarf og kostnaðar- og tímaáætlun þeirra.“

Þetta er út af fyrir sig nánast svar frá ráðherranum um að hann hafi móttekið erindi okkar en engin efnisleg afstaða er tekin til þess. En það vekur spurningar um hvort rétt sé og skynsamlegt að sá aðili sem hefur borið alla ábyrgð á þessu máli og því sem sumir stjórnarliðar, meðal annars hv. formaður samgöngunefndar, hafa kallað klúður á klúður ofan, sé hinn rétti til þess að stýra yfirferð á málinu og gæta hagsmuna ríkissjóðs í því samhengi. Það er vægast sagt undarlegt að ætla sér að fara yfir það mál allt með þeim hætti með þeim sömu aðilum, og ekki virðast aðrir eiga að koma að því.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé óeðlilegt að standa þannig að málum. Þetta mál þarf miklu frekari umfjöllun á vettvangi Alþingis og í þeim nefndum sem um það eiga að fjalla, fjárlaganefnd, sem að sjálfsögðu á að fjalla um framkvæmd fjárlaga og meðferð fjármuna, og samgöngunefnd, sem hlýtur að fjalla um þetta mál frá sínu sjónarhorni.

Það er fleira sem vekur athygli í frumvarpinu. Ég tek sérstaklega eftir þeim miklu viðbótarfjármunum sem gert er ráð fyrir að fari til svokallaðra hermála eða varnarmála sem kemur í kjölfar þess að Bandaríkjamenn tóku ákvörðun um að loka herstöð sinni hér á landi — því fögnum við að sjálfsögðu sem höfum barist fyrir því lengi. En sá böggull fylgir skammrifi að allt í einu verða til heilmikil útgjöld hjá íslenska ríkinu sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2007 enda þótt þetta hefði átt að vera alveg ljóst á þeim tímapunkti. Þau útgjöld koma nú inn í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem farið er fram á verulegar fjárhæðir, meðal annars í heræfingar og aðra slíka hluti. Við hljótum að spyrja hvort þær æfingar séu nauðsynlegar og hvort eðlilega og rétt sé að þessum hlutum staðið.

Ég vil enn fremur vekja máls á því að í einni grein frumvarpsins, heimildargrein frumvarpsins, 4. gr., er meðal annars farið fram á að liður sem heitir 460 í 6. gr. fjárlaga heiti nú Að selja fasteignir og landsvæði fyrrum olíustöðvar NATO í Hvalfirði. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að í upphaflegu greininni hafði fjármálaráðuneytið fengið heimild á fjárlögum til þess að selja landspildur ríkisins í Hvalfirði, eins og það hét í fjárlögum.

Ég leyfði mér, virðulegi forseti, að gera þetta að umtalsefni í 1. umr. um fjárlögin og spurði fjármálaráðherra út í það hvort hann hefði skoðað þetta mál til þrautar. Ég lét það sjónarmið koma fram að ég teldi að ekki væru heimildir til að fara í þá sölu sem auglýst var í byrjun september af hálfu Ríkiskaupa fyrir hönd ríkissjóðs.

Ég hef líka lagt fram ítarlegar fyrirspurnir til hæstv. fjármálaráðherra og óskað skriflegs svars við þeim. En þar sem þetta mál kemur inn í fjáraukalögunum finnst mér óhjákvæmilegt að fjalla um það nú. Ég spyr meðal annars: Á grundvelli hvaða heimilda eru húseignir, tækjabúnaður og bryggja fyrrum olíubirgðastöðvar NATO í Hvalfirði auglýstar til sölu?

Það var mín skoðun þá að orðalagið í fjárlögunum hefði ekki veitt heimild til að auglýsa allar þessar eignir til sölu. Í mínum málskilningi eru landspildur ríkisins í Hvalfirði bara ósköp einfaldlega land en ekki öll þau mannvirki, olíutankar, hús eða bryggjur, sem þar voru og voru líka auglýst til sölu. Enda kemur það í ljós, þegar fjáraukalagafrumvarpið birtist, að fjármálaráðherra óskar nú heimildar til að selja fasteignir og landsvæði fyrrum olíustöðvar NATO í Hvalfirði.

Það er í raun svar. Þótt ég hafi ekki enn þá fengið skrifleg svör frá hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurnum mínum er hér engu að síður svar við fyrstu spurningu minni. Fjármálaráðuneytið viðurkennir að þessar heimildir hafi skort og er nú að leita þeirra þrátt fyrir að þessar eignir hafi allar verið auglýstar til sölu í byrjun september og ekkert þar undanskilið.

Ég gagnrýni það og tel það ámælisverð vinnubrögð að standa þannig að málum. Ef það voru áform ríkisins að selja allar eignir á þessum stað ásamt landi hefði annað tveggja átt að afla þeirra heimilda strax í fjárlögum fyrir árið 2007 eða þá að fara ekki í þessa sölu fyrr en allar heimildir væru fyrir hendi. En það er ekki gert heldur er einfaldlega ákveðið að auglýsa eignirnar og síðan er kylfa látin ráða kasti um það hvort heimild fæst síðar.

Það er auðvitað fjölmargt annað í því máli sem ég tel ámælisvert í vinnubrögðum ríkisins. Það er tilefni til að fara aðeins betur í þetta mál hér vegna þess sem gert er ráð fyrir eða óskað eftir í fjáraukalögum. Ég hef t.d. líka spurt hvort fjármálaráðuneytið hafi, áður en það auglýsti söluna, gengið úr skugga um að umræddar eignir væru skráðar í Landsskrá fasteigna og ef svo er ekki hvort ráðherrann telji eðlilegt að auglýsa til sölu óskráðar eignir. Ég hef fyrir því heimildir núna, m.a. kemur það fram í bréfi frá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að engin af umræddum eignum séu skráðar í Landskrá fasteigna. Þær eru í raun sem sagt ekki til en eru engu að síður auglýstar lausar til sölu. Mér finnst fróðlegt að vita hvort þetta eru eðlileg vinnubrögð hjá ríkinu.

Það er líka þannig að í gögnunum sem fylgdu auglýsingunni er ekki samræmi í því hversu stórt þetta land er sem er verið að selja. Mér þætti líka fróðlegt að vita það hvað þeir sem buðu í þessar eignir voru í raun að bjóða. Voru þeir að bjóða í 18,6 hektara lands sem stóð í auglýsingu eða voru þeir að bjóða í 47,3 hektara sem stóð í sölugögnum?

Ég held líka að það sé mikilvægt þegar svona mál er til meðferðar, þegar verið er að selja eignir og land, að menn viti undir hvaða starfsemi það land getur nýst samkvæmt skipulaginu. Samkvæmt heimildum mínum og því sem fram kemur í bréfi Hvalfjarðarsveitar til Ríkiskaupa þá liggur ekki fyrir neitt skipulag á þessu svæði og því vita hvorki seljandinn né kaupandinn undir hvaða starfsemi má nota þetta land. Mér finnst ekki vel haldið á hagsmunum að standa þannig á málum. Það er ekki heiðarlegt gagnvart kaupandanum að hann viti ekki til hvers má nota landið sem hann er að kaupa og það er ekki skynsamlegt af hálfu ríkisins að selja land sem það veit ekki hvers er virði vegna þess að ákvæði skipulagsins geta haft heilmikið um það að segja hvers virði landið er. Ég tel því að þarna hafi ríkisvaldið farið fram úr sjálfu sér.

Svo verð ég líka að rekja það, frú forseti, sem þykir nú eiginlega bara brandari, en í sölugögnum er húseignunum lýst og þar segir m.a. um eina húseignina að hún sé metin ónýt og svo segir, með leyfi forseta, að hún sé í eigu bónda í sveitinni. Ein húseignin sem auglýst er til sölu af hálfu ríkisins er sögð í eigu bónda í sveitinni. Þá spyr maður sig: Hefur Ríkiskaup, fjármálaráðuneytið og Ríkiskaup fyrir hönd fjármálaráðuneytisins tekið að sér að selja eignir fyrir fólk hér og þar í landinu? Að því forspurðu kannski? Það á eftir að fá að vita það hvort fjármálaráðuneytið hafði umboð viðkomandi eiganda. En það er engu líkara en að fjármálaráðuneytið eða Ríkiskaup fyrir hönd þess sé orðin hálfgerð fasteignasala. Það sé farið að selja eignir sem fólk á og að því er virðist að því forspurðu.

Síðan er líka alvarlegt í þessu máli að í þeim gögnum sem Ríkiskaup birta með auglýsingunni þá birtir Ríkiskaup kafla úr skýrslu Almennu verkfræðistofunnar um ástand þessara eigna frá árinu 2004. Í auglýsingunni verður ekki betur séð en að Ríkiskaup kjósi að birta ekki allar þær auglýsingar sem voru í hinni raunverulegu skýrslu frá árinu 2004 heldur aðeins valinn hluta. Til dæmis er öllum áætlunum Almennu verkfræðistofunnar um kostnað kippt burtu í auglýsingu Ríkiskaupa. En í upprunalegu skýrslunni eins og hún er í sinni fullu mynd, þá segir m.a. þar sem verið er að útlista þessar eignir allar og hvernig hægt sé að nýta þær, með leyfi forseta:

„Reiknað er með að loka stöðinni og fjarlægja allan búnað, fasteignir og það sem er innan svæðis NATO, fjarlægja mengaðan jarðveg og ganga frá jarðvegsyfirborði. Áætlaður kostnaður við slíka framkvæmd eru 900 millj. kr.“

Og hver á að bera þann kostnað eða á kannski ekkert að fara í þetta verkefni?

Það segir hér líka, virðulegi forseti, að halda við eignum og öllum búnaði og tækjum sem tilheyra olíubirgðastöðinni er áætlað að kosti 60 millj. kr. á ári. Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Einn valkostur er að olíubirgðastöðin verði sett í notkun fljótlega og til að svo verði hægt þá þarf að leggja út í kostnað vegna viðgerða og fleira til að hægt sé að starfrækja stöðina. Áætlaður kostnaður við standsetningu eru 450 millj. kr. og við það bætist að viðhald á eigninni er 90 millj. kr. á ári.“

Ég spyr: Hver á að bera þennan kostnað? Hvers vegna fengu bjóðendur í þessar eignir ekki upplýsingar um þennan þátt?

Svo segir hér að lokum í þessari ágætu skýrslu, virðulegi forseti:

„Að nota stöðina fyrir annað en olíubirgðastöð telst ekki álitlegur kostur. Þeir möguleikar sem væru hugsanlega í stöðinni væru að sett verði upp stríðsminjasafn. Nota rafstöðvar til að selja inn á dreifikerfi, toppstöð eða nota sem hluta af olíuhreinsistöð. Kostnaður við niðurrif gæti því verið nokkuð lægri ef gert væri t.d. stríðsminjasafn þar sem hluti af eignum stæðu um ókomna tíð.“

Það er nefnilega það. Hefur sveitarfélagið verið spurt eitthvað um þetta? Nei. Í erindi Hvalfjarðarsveitar til Ríkiskaupa eru gerðar athugasemdir, mjög alvarlegar athugasemdir við þessa málsmeðferð fjármálaráðuneytisins og Ríkiskaupa og þar kemur fram að það hefur ekkert verið við sveitarfélagið talað. Ég segi nú alveg eins og er, að ég hefði talið að ríkið hefði átt að standa allt öðruvísi að þessu máli. Það átti að sjálfsögðu að fara í viðræður við sveitarfélagið um það hvaða nýtingu, hvaða landnotkun yrði hugsanlega heimiluð í skipulagið því það þarf að sjálfsögðu að vinna að skipulagi á þessu svæði, landið allt er skipulagsskylt, en því var kippt til baka þegar sveitarfélagið gerði sitt aðalskipulag vegna þess að þarna var um herstöð að ræða, eða svæði á vegum Atlantshafsbandalagsins. Nú þarf að sjálfsögðu að klára aðalskipulag þessa svæðis og um það þarf að ræða við sveitarfélagið.

Af hverju fór ríkisvaldið ekki í viðræður við sveitarfélagið um það hvernig ætti að nýta þetta land og hvaða heimildir yrðu í skipulagi? Síðan kæmu menn sér að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um hvernig ætti að fara með þetta.

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að þetta sé enn eitt dæmið um að það er ekki haldið vel á hagsmunum ríkisins og það er farið býsna frjálslega með þær heimildir sem menn hafa í lögum. Mér finnst það mjög miður að svo sé staðið að málum og mér finnst engin sanngirni í því hvernig komið hefur verið fram við sveitarfélagið. Ég er sannfærður um að þeir sem voru að bjóða í þessar eignir hafa ekki vitað allt um ástand þeirra. Þeir vita ekki nákvæmlega hvað sveitarfélagið hyggst fyrir um landnotkun á svæðinu. Þeir vita ekki um ástand olíugeymanna. Þeir vita ekki hvort þeir uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum til birgðahalds. Allt þetta skiptir verulega miklu máli og á að sjálfsögðu að vera uppi á borði þannig að það liggi fyrir þegar menn eru að bjóða í eignir og líka af hálfu ríkisins þegar það er að selja eignir. Fyrir utan það að ríkið þarf að sjálfsögðu að hafa klárar heimildir áður en það leggur af stað í svona leiðangur.