135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:27]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get upplýst hæstv. fjármálaráðherra um að það er rétt sem hann heldur fram að ég hafi undir höndum erindi Hvalfjarðarsveitar til Ríkiskaupa. Ég hef líka svar Ríkiskaupa við nokkrum spurningum sem komu frá Faxaflóahöfnum að því er þetta mál varðar og fullyrði að það er ekkert á þeim svörum að græða. Í svörunum er engin efnisleg afstaða tekin um þau álitamál sem þar var spurt um, ekki um nokkurn skapaðan hlut.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að sjálfsögðu að hafa heimildir fyrir fram til þess að auglýsa eignir til sölu, að ég tali nú ekki um til að ganga frá samningum. Þegar hann spyr hvaða hagsmuni sé verið að tala um og vitnar þar í hæsta boð og svo boð Faxaflóahafna þar sem ég sit sannarlega í hafnarstjórn, þá segi ég bara að ég tel að bæði hugsanlegir kaupendur og seljandinn eigi að vita fyrir fram hvað verið er að selja.

Það er alveg klárt í mínum huga að af hálfu Faxaflóahafna lágu fyrir ýmsar upplýsingar vegna þess að þessar gömlu skýrslur lágu fyrir í heild sinni og menn vissu nokkurn veginn hvað var verið að tala um. Kannski var það hið raunverulega sannvirði, ég veit ekkert um það en ég tel líka að það gæti vel verið ef ríkisvaldið hefði vitað hvaða skipulag yrði heimilað á þessu svæði þá hefði verðmæti svæðisins aukist. En það vissu menn ekki um fyrir fram, hvorki bjóðendur né fjármálaráðuneytið.

Ég er því þeirrar skoðunar að ef fjármálaráðuneytið hefði farið í viðræður við sveitarfélagið þá hefði niðurstaðan hugsanlega orðið sú að þetta svæði hefði orðið enn verðmeira. Ég veit ekkert um það. Ég er bara að segja að þessar upplýsingar lágu ekki fyrir og ég tel það ekki góða stjórnsýslu.