135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

hafnalög.

93. mál
[16:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

Hér er um að ræða tvær smávægilegar breytingar á lögunum, annars vegar til nánari skýringar á einu ákvæði laganna og hins vegar breytingu sem leiðir af ákvörðun ríkisstjórnarinnar í júlí síðastliðnum um sérstakar aðgerðir vegna samdráttar í þorskafla. Nánar tiltekið er um að ræða breytingu á 3. tölul. 1. mgr. 17. gr. sem fjallar um geymslugjöld. Eins og ákvæðið er nú orðað er ekki nægilega skýrt að heimilt er að taka geymslugjöld hvort sem varan er geymd innan eða utan húss. Breytingunni sem lögð er til er ætlað að koma í veg fyrir slíkan vafa og er með henni skýrt kveðið á um heimild til gjaldtöku í báðum tilvikum.

Síðari breytingin snýr að því að heimila sveitarfélögum að fresta styrktum hafnarframkvæmdum á meðan samdráttartímabilið vegna skerðingar þorskkvóta varir. Samkvæmt gildandi hafnalögum í bráðabirgðaákvæði II er gert ráð fyrir að ný ákvæði um styrktar framkvæmdir taki gildi 1. janúar 2009. Vegna þess má búast við því að sveitarfélög sem þegar hafa fengið heimildir til framkvæmda á grundvelli eldri styrkjareglna muni ráðast í þessar framkvæmdir fyrir þann tíma. Það munu þau gera til að missa ekki af þeim betri styrkjum sem eldra kerfið hefur í för með sér hvað sem líður tekjusamdrættinum vegna aflasamdráttarins og áhrifum hans. Rétt þykir því að breyta bráðabirgðaákvæðinu þannig að heimila þeim sveitarfélögum sem þess óska að fresta slíkum hafnarframkvæmdum þann tíma sem samdrátturinn varir.

Hæstv. forseti. Þetta eru þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu og ég tel ekki ástæða til að hafa um það fleiri orð. Ég legg því til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.