135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:20]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Veiðigjaldið í fiskveiðum er ekkert annað en valdbeiting gagnvart einni atvinnugrein. Hægt er að standa á því af fullri festu vegna þess að engir aðrir í landinu eru rukkaðir um neitt samsvarandi gjald, skattlagðir svo gríðarlega. Það var ágætt að heyra í hv. síðasta ræðumanni en allt sem hann sagði er morgunljóst úr Litlu gulu hænunni, svona grundvallaratriði.

Það hefur lengi verið sagt á Íslandi að það þurfi að efla rannsóknir. Það er af hinu góða. Það hefur hins vegar gerst mjög hægt og mjög seint. Engin viðbrögð hafa t.d. komið frá hæstv. sjávarútvegsráðherra í þá veru að kalla til og leita eftir reynslu skipstjórnarmanna. (Gripið fram í.) Ef það er rangt biðst ég afsökunar á því. En ef það er inni í myndinni í nærliggjandi ferli þá er það mjög vel og af hinu góða. Það þarf að vinna þessa hluti í eins heilum pakka og hægt er, eins og ég gat um áðan.