135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

vatnalög.

94. mál
[19:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu stjórnarfrumvarp um frestun á gildistöku svokallaðra vatnalaga. Að lokinni umræðu um frumvarpið kemur annað frumvarp til umræðu. Það er frumvarp sem borið er fram af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að umrætt frumvarp eða umrædd lög komi aldrei til framkvæmda. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það frumvarp þegar þar að kemur þótt að sjálfsögðu fjalli það um sama efni.

Ég fagna því sérstaklega að þetta frumvarp skuli fram komið. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. iðnaðarráðherra, þegar hann vísar í ummæli og yfirlýsingar og heitstrengingar sem gefnar voru í marsmánuði 2006 þegar samkomulag varð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að skjóta málinu á frest, eða gildistöku laganna.

Ég ætla að vitna í önnur tilmæli sem þá voru einnig gefin. Vegna þess að þó að hæstv. iðnaðarráðherra segi okkur að þetta sé í góðri sátt stjórnarflokkanna þá höfum við orðið vitni að öðru. Við fylgdumst með því í sumar, eftir að hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir að hann hygðist fresta gildistöku vatnalaganna, að frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins reis upp og sagði að það skyldi aldrei verða. (Iðnrh.: Hvar er hún núna?) Ég minnist þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom fram í fjölmiðlum og fleiri þingmenn ef ég man rétt.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði hins vegar að sinn flokkur stæði einhuga að baki hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta snerti. Ég vænti þess að sú skoðun sem fram fer á þessu frumvarpi og þessum lagabálki verði ekki bara að forminu til. Ég hef ástæðu til að ætla að gerðar verði efnislegar breytingar á málinu vegna þess að formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir í þingsal að gerðar yrðu raunverulegar breytingar á frumvarpinu, að lögin yrðu ekki samþykkt óbreytt með hennar stuðningi.

Ég vísa í yfirlýsingu sem formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gaf 16. mars árið 2006. Þá sagði hún að vatnalögin gætu ekki gengið í gildi óbreytt. Ráðherrann sagði þá eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Frestun á gildistöku gefur okkur tækifæri til að breyta þessum lögum að afloknum kosningum og það munum við að sjálfsögðu gera.“

Það má frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins vita að það stendur til að breyta þessum lögum. Ég mun koma að því í ræðu sem ég hyggst flytja, sem verður ekki mjög löng, um frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á eftir, hvers vegna þarf að breyta þessum lögum í grundvallaratriðum. En að því kem ég síðar.

Ég fagna frumkvæði hæstv. iðnaðarráðherra sem er, eins og hann hefur getið um, í samræmi við fyrri yfirlýsingar sem gefnar voru af þáverandi ríkisstjórn á Alþingi. Ég hef síðan bætt í heitstrengingum formanns Samfylkingarinnar um að grundvallarbreytingar verði gerðar á þessum lögum.