135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

vatnalög.

94. mál
[19:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, með fullri virðingu fyrir honum, eigi að fara varlega í að gefa yfirlýsingar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Ég ætla að vona að þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, séu ekki að fullu leyti samstiga í auðlindamálum og þar er ég að horfa til yfirlýsinga formanns Sjálfstæðisflokksins hér fyrir fáeinum dögum þegar hann sagði að það stæði ekki endilega til að einkavæða allar orkuauðlindirnar. Hann orðaði það öðruvísi, hann orðaði það fremur aulalega til að reyna að drepa málinu á dreif og talaði um andlag, að þær þyrftu ekki endilega allar að verða andlag einkavæðingar, en það var þetta sem hann átti þar við.

Ég tel það vera stóra mál komandi ára í stjórnmálum að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, hvort sem það er til sjávar eða til landsins. Þá þurfa að sjálfsögðu allir að spyrja sig þessarar grundvallarspurningar: Hverjir eiga samleið til að tryggja þetta verkefni í höfn? Það þurfa allir að spyrja sig þeirrar grundvallarspurningar. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því hvernig þessum málum vindur fram.

Menn eru að boða hér frumvörp um eignarhald á auðlindunum. Við skulum sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn tekur í slíkt. Ég fagna yfirlýsingum sem fram hafa komið frá hæstv. iðnaðarráðherra um það efni en hversu samstiga þessir stjórnarflokkar eiga eftir að reynast hvað þetta snertir á einfaldlega eftir að koma í ljós. Ég held að það sé kominn tími til að allir skoði og endurskoði (Forseti hringir.) hug sinn hvað þetta snertir.