135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[19:35]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur allur að en í þessu frumvarpi er lagt til að lög nr. 20/2006, vatnalög, falli brott.

Við ræddum áðan tillögu ríkisstjórnarinnar sem borin var fram af hæstv. iðnaðarráðherra, frumvarp um að gildistöku laganna yrði frestað um eitt ár. Ef ekkert verður að gert verður þetta illræmda frumvarp að lögum 1. nóvember nk. og þarna yrði leikinn millileikur með því að fresta gildistökunni um eitt ár. Við viljum ganga lengra og nema lögin algjörlega úr gildi.

Ég vek athygli á því að ég hef lesið upp yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar sem gefin var hér í þingsal 16. mars árið 2006 um að hún líti svo á að gera þurfi grundvallarbreytingar á frumvarpinu. Ég fagna því. Þetta er skuldbindandi yfirlýsing sem gefin var af hálfu Samfylkingarinnar og við munum fylgjast með því hvort Samfylkingin standi við þær yfirlýsingar sem fulltrúar hennar gáfu á sínum tíma í umræðu um vatnalögin.

Aðeins örfá orð um þetta frumvarp. Um er að ræða breytingu á lögum sem voru sett á Alþingi árið 1923. Þar var um að ræða umfangsmikinn lagabálk sem menn hafa síðan verið að kroppa í á umliðnum árum í ýmsum frumvörpum sem hafa komið fyrir þingið. Ég nefni lög um vatnsveitur, lög um jarðefni frá 1998 og fleiri lagabálka mætti tína til sögunnar en þetta er grundvallarbálkurinn engu að síður.

Hvað sögðum við af hálfu stjórnarandstöðunnar við þessa umræðu? Við sögðum að í gegnum aldirnar hefði það viðhorf verið ríkjandi á Íslandi, staðfest í reglum og lögum frá gamalli tíð að rétturinn til vatnsins væri að uppistöðu til afnotaréttur en ekki eignarréttur. Þetta voru sjónarmið sem menn tókust á um í aðdraganda þess að vatnalögin voru sett 1923.

Stjórnarmeirihlutinn á þinginu sagði að á 20. öldinni hefði það hins vegar verið að gerast að eignarréttarnálgunin hefði verið að styrkjast í sessi í gegnum dómskerfið, dómapraxís hefði verið að beina túlkun laganna á þá braut og að í því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram væri í reynd verið að laga gömlu vatnalögin að nýjum dómapraxís. Þetta voru rökin sem sett voru fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við andmæltum þessu en sögðum jafnframt að jafnvel þótt svo hefði verið bæri okkur við endurskoðun laganna að taka mið af þeim viðhorfum sem væru uppi á okkar tíð. Hver eru þau? Hvað eru almannasamtök í heiminum að segja, hvað eru Sameinuðu þjóðirnar að segja? Jú, þar er allt á einn veg, að styrkja beri almannarétt til eignar á grundvallarauðlindum og þá ekki síst á orkunni og vatninu. Það væri grundvallaratriði. Hér á landi myndaðist breið samstaða í þjóðfélaginu milli verkalýðssamtaka, að því kom kirkjan og Rauði krossinn og fjölmörg samtök, ég man ekki hversu mörg þau voru, það myndaðist mjög víðtæk og breið samstaða um það í samfélaginu að tryggja ætti vatn sem grundvallareign þjóðarinnar. Þetta var grunnstefið í málflutningi okkar af hálfu stjórnarandstöðunnar, að endurskoðun vatnalaganna ætti að fela það viðhorf í sér að við ættum að styrkja almannaréttinn en ekki einkaeignarréttinn.

Ég er þeirrar skoðunar mjög eindregið að við eigum að taka til endurskoðunar ýmis lög sem sett hafa verið á undanförnum árum sem hafa gengið í gagnstæða átt. Ég tel einhver skaðlegustu lög sem hér hafa verið sett vera lögin um eignarrétt á verðmætum í jörðu, jarðefnum, ég man ekki nákvæmlega hvað þau hétu, sem voru sett 1998 þar sem eignarréttur var tryggður, einkaeignarréttur á jarðvarma nánast alla leið til Kína. Við göngum jafnvel lengra en Texasbúar með olíuna í að tryggja einkaeignarréttinn. Þetta er nokkuð sem við eigum að reyna að snúa til baka með.

Ég man eftir því að þegar þessi lög voru til umræðu í þinginu fór sá þingflokkur sem ég átti þá aðild að í Elliðaárdalinn og hélt fréttamannafund við borholu sem þar var. Við höfðum fundið það út að verðmæti úr þessari borholu reyndist hálfur milljarður á ári ef borholan hefði verið … (Gripið fram í: Í dollurum eða krónum?) Hálfur milljarður í krónum talið. Ef borholan hefði verið 500 metrum neðar í dalnum hefði hún verið á einkaeignarlandi og þá hefði einstaklingur fengið þetta í sinn hlut.

Ég held að margir hafi áttað sig á því síðar hversu vitlaus þessi lagasmíð var, hversu arfavitlaust þetta var. Ég tel að við eigum að nota þetta tækifæri núna til að taka alla þessa lagasmíð til endurskoðunar. Við stóðum hér í miklum slag á sínum tíma þegar lög um vatnsveitur voru sett en þá heimtaði ríkisstjórnin sem þá sat, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, að einkavæða mætti vatnsveitur. Við af hálfu stjórnarandstöðunnar og einnig verkalýðshreyfingar — ég þekki til þess að t.d. BSRB beitti sér mjög við að reyna að ná einhverri góðri niðurstöðu í því máli — bentum á að tvær leiðir mætti fara. Annars vegar evrópsku leiðina þar sem verkalýðshreyfing og almannasamtök hafa lagt áherslu á að tryggja eignarhald samfélagsins á vatninu og hins vegar amerísku leiðina, sem ég er ekki eins hliðhollur, en þar hafa menn fellt sig við það að auðlindirnar séu einkavæddar en samkvæmt mjög ströngum skilyrðum. Skilyrðin eru þá iðulega þau að eigandi og rekstraraðili vatnsveitna t.d. má ekki taka út meiri arð en kveðið er á um í lögum og reglum. Þar er talað um að „regúlera“ þessa þjónustu, að setja henni skorður með reglugerðarverki. Þá segja menn: Ef við höfum þetta nógu hófstillt sækja braskararnir ekki inn í þessa veröld, ef menn mega ekki taka nema segjum 2%, 3%, 4% út úr greininni. Niðurstaðan varð sú varðandi lögin um vatnsveitur að farin var eins konar blanda af þessu. Sett voru skilyrði um hámarksarð sem taka mætti út og það var líka sett þak á eignarhaldið á vatnsveitunum, að þær yrðu að vera a.m.k. að helmingi til í eigu opinberra aðila.

Við í stjórnarandstöðunni vorum, mörg hver, óhress með þessa niðurstöðu, sáum ekki og sjáum ekki enn hvers vegna yfirleitt ætti að veita einkakapítalinu aðgang inn í vatnið, inn í Gvendarbrunnana, og vildum þess í stað tryggja almannaeign. Mér finnst síðan stóra málið að greina á milli reksturs og eignarhalds á auðlindum, það er náttúrlega stóra málið í þessu öllu. Þegar Jón Ólafsson fer að selja vatnið undan Ingólfsfjalli, eða hvar það nú er, finnst mér grundvallaratriði að tryggt sé að eignarhaldið sé hjá samfélaginu. Ég mundi geta sætt mig við að fyrir vatnið yrði greitt vægt gjald til að byrja með en mér finnst skipta öllu máli að við tryggjum eignarhaldið hjá almenningi, hjá þjóðinni. Þetta eru framtíðarhagsmunir, hitt skiptir ekki eins miklu máli.

Ég vek máls á þessu hér vegna þess að eins og ég kom inn á áðan finnst mér þetta vera grundvallarspurningin sem pólitíkin stendur frammi fyrir. Ég held að einhver afdrifaríkustu mistök sem hér hafa verið gerð í seinni tíð hafi verið kvótakerfið, þegar sjávarútvegurinn og auðlindir til sjávar voru í reynd einkavædd.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði í umræðunni í dag, hinni ágætu umræðu sem hv. þm. Björn Valur Gíslason, fulltrúi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hafði frumkvæði að, en hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði að það væri alveg rétt að það væri áfall fyrir byggðarlag sem treysti á sjávarútveg þegar kvótinn væri dreginn saman en við mættum ekki gleyma því að byggðarlög hefðu einnig orðið fyrir miklu áfalli þegar togari hefði farið með kvótann úr byggðarlaginu. Er hann þar að vísa í hin skaðlegu áhrif sem kvótakerfið hefur haft í sjávarbyggðum á Íslandi.

Ég tel að við eigum að taka auðlindamálin öll til endurskoðunar núna, öll lög sem lúta að auðlindum þjóðarinnar á að taka til endurskoðunar og það á að verða viðfangsefni næstu ára. Ég tel að hlutirnir séu að gerast svo hratt að þjóðin sé núna loksins að vakna upp til vitundar um nauðsyn þess að taka á þessum málum á nýjan leik. Framsóknarflokkurinn hafði frumkvæði að því hér síðastliðið vor að setja fram tillögur sem að mati flokksins áttu að styrkja eignarhald samfélagsins á kvótanum, á sjávarauðlegðinni. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það var einmitt sami flokkur sem stóð að ýmsum þeim illu frumvörpum sem ég hef verið að vísa til hér í orkuiðnaðinum. En ættum við ekki öll að sameinast um að endurskoða afstöðu okkar, þau okkar sem þurfa á annað borð að gera það? Það eru ekki allir, það er alveg rétt. Ég held að það sé að verða vitundarvakning í þjóðfélaginu og þá held ég að allir stjórnmálaflokkar þurfi að endurskoða afstöðu sína og menn þurfi þá að sjálfsögðu að spyrja með hverjum þeir eigi samleið þegar tekið er á þessum málum.