135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[19:55]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í hreinskilni sagt finnst mér sem hv. þingmaður sem hér talaði áðan sé orðinn markaðssækinn miðað við þann gamla góða Ögmund sem ég hef þekkt hér fyrr á árum.

Ég vil segja að þegar við erum að ræða um auðlindir og eignarhald á þeim þá liggur alveg ljóst fyrir hver afstaða mín er varðandi sjávarauðlindina. Hins vegar er miklu auðveldara að beita þeim rökum sem lúta að samfélagslegri eign varðandi til dæmis orkulindir og vatnslindir vegna þess að nýting þeirra hefur verið uppbyggð með öðrum hætti en nýtingin á sjávarauðlindinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til dæmis jafnan haldið því fram eða að minnsta kosti hluti hans að það sé andstætt ákveðnum grundvallarhugsjónum hans að sjávarauðlindin verði með þeim hætti sem til dæmis hv. þingmaður hefur talað fyrir, í samfélagslegri eigu vegna þess að einstaklingar hafi lagt bæði eigið atgervi og fjármagn í áhættu við að byggja hana upp. Það eru rök sem ber a.m.k. að skoða og maður skilur hvernig þau eru fram sett. En ég er ekki sammála þeim.

Hins vegar er ekki hægt að beita þeim rökum — og það er lykilatriði — varðandi til dæmis orkuauðlindina eða vatnsauðlindina vegna þess að þar hefur samfélagið byggt það upp að öllu leyti. Þar er ekki hægt að segja að einstaklingar hafi farið í áhætturekstur eins og í sjávarútvegi til þess að byggja upp auðlindina. Þetta gerir það að verkum að í mínum huga er grundvallarmunur á rökræðunni um annars vegar sjávarauðlindina og hins vegar þessar tvær auðlindir sem ég hef hér nefnt og ætti að gera það að verkum að það væri hugsanlega auðveldara að ná samkomulagi um það tvennt en um sjávarauðlindina sem við höfum deilt um hér hátt á annan áratug, ég og ýmsir góðir vinir mínir í Sjálfstæðisflokknum, og ekki enn náð því að komast til fjöru.