135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[20:15]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér örlítið í umræðu um frumvarpið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um brottfall laga nr. 20/2006, vatnalaga. Inn í umræðu um það mál blandast að sjálfsögðu fleiri þingmál sem hér eru til meðferðar um þessar mundir, bæði frumvarp til laga um breytingar á vatnalögum, nr. 20/2006, sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti fyrir fyrr í kvöld og einnig tillaga til þingsályktunar frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu.

Það er nefnilega þannig að við ræðum í raun afar stór grundvallarmál í stjórnmálum. Við ræðum um auðlindirnar og eignarhald á þeim. Í mínum huga liggja stærstu átakalínurnar í stjórnmálum einmitt í umræðum um þau mál. Átakalínur í stjórnmálum liggja ekki síst um það hvaða verkefni eiga að vera samfélagsleg og hvaða verkefni við viljum setja til einkaaðila. Í því samhengi er spurningin um eignarhald á auðlindunum sjálfum gríðarlega stór og fyrirferðarmikil.

Ég tek því undir með þeim sem hafa lagt á það áherslu í þessari umræðu að við séum að takast á um stór, pólitísk álitamál og það er eðlilegt að hinar pólitísku línur á Alþingi snúist um þessa spurningu. Ef einhver stuðningur er við einhverja tiltekna afstöðu í svona stóru og viðamiklu máli á hv. Alþingi ætti sú afstaða að ná fram að ganga. Hér er ekki neitt smámál á ferðinni.

Í umræðum á sumarþingi, þar sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum sama frumvarp, um brottnám vatnalaga, var að sjálfsögðu minnt á þau miklu átök sem orðið höfðu á hv. Alþingi þegar vatnalögin frá 2006 voru til umfjöllunar og þegar gert var ákveðið samkomulag um að fresta gildistöku vatnalaganna til 1. nóvember 2007 til þess að ný ríkisstjórn gæti brugðist við og þá breytt hinum mjög svo umdeildu vatnalögum.

Nú er það líka ljóst, og á það hefur verið bent í þessari umræðu, að annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, hafði mjög afdráttarlausa afstöðu til þessa máls, stóð að því með hinum flokkunum í stjórnarandstöðu að knýja það í gegn að vatnalögin öðluðust ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2007, stóð mjög keik í því. Og frá forustumönnum Samfylkingarinnar komu einnig mjög ákveðnar yfirlýsingar um að mikilvægt væri að endurskoða þessi ákvæði.

Það kom líka fram að þegar fulltrúar þáverandi minni hluta á 132. löggjafarþingi skiluðu nefndaráliti sínu í iðnaðarnefnd um frumvarp til vatnalaga var sú afstaða skrifuð í nefndarálit að heildarlög um vatnsréttindi, sem eru frá árinu 1923, hafi staðist tímans tönn furðuvel, eins og þar er sagt, og hafi verið merkileg lagasetning á sínum tíma og kannski ekki síst fyrir þá sök að þar var verið að móta reglur um nýtingarrétt á vatni — og því hefur verið haldið fram að í vatnalögunum frá 2006 hafi verið snúið af þeirri línu og þeirri braut sem lögð var á sínum tíma og einkaeignarréttinum gert mjög hátt undir höfði. Ég held að þær áhyggjur sem menn hafa lýst í umræðum um þetta mál, sérstaklega hvað einkaeignarréttinn snertir, eigi við ekkert síður nú en þegar þetta var til umfjöllunar síðast.

Vakið hefur verið máls á því að spurning sé hvort ekki sé nauðsynlegt að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskrá. Það er gert á einhverjum stöðum í kringum okkur. Víðast hvar er vatnið í samfélagslegri eigu. Ef við horfum yfir þetta á heimsvísu eru vatnsveitukerfi sem eru fjármögnuð með einkarekstri um 5% en 95% af hálfu opinberra aðila. Vissulega er þetta eitthvað misjafnt á milli ríkja en þetta mun vera staðan þegar menn horfa á þetta heildrænt. Í yfirgnæfandi fjölda tilvika eru vatnsveitur í eigu opinberra aðila.

Vatnsveitan er þýðingarmikið verkefni sveitarfélaganna í landinu. Það er að mínu viti ákaflega mikið mannréttindamál að allir hafi aðgang að vatni. Í mínum huga er það dæmigert verkefni fyrir samfélagið, hvort sem það er á vegum ríkis eða sveitarfélaga, að tryggja öllum aðgang að vatni á ásættanlegu verði. (IllG: En mat?) Það liggur fyrir, held ég, að flestir að minnsta kosti viðurkenni að ekkert líf fær þrifist án vatns. Ég vona að hv. þm. Illugi Gunnarsson sé sama sinnis hvað það snertir. (Gripið fram í.)

Í athugun sem gerð hefur verið á vatnsverði í borgum í Frakklandi kemur fram athyglisverður munur á vatnsverði til almennings sem fyrst og fremst ræðst af því hvort vatnsveiturnar eru í einkaeign eða almannaeign. Þar er það þannig að tvö- til þrefaldur munur er á verði. Það er meginreglan að tvö- til þrefaldur munur sé á því verði sem almenningur greiðir fyrir vatn eftir því hvort veiturnar eru í einkaeign eða almannaeign. Þetta er eitt af því sem menn hafa sagt og haldið fram í þessari umræðu og á reyndar við um orkuna, og á við um rafmagnið. Þar sem rafmagnið hefur verið einkavætt hefur það víðast hvar, ég ætla ekki að halda því fram að það sé undantekningarlaust, leitt til hærra raforkuverðs og meira óöryggis í orkuafhendingu. Það er einfaldlega vegna þess að það eru ekki lögmál samfélagsþjónustunnar, almannaþjónustunnar, sem ráða ferðinni heldur lögmál einkaeignarréttarins, markaðarins, gróðans.

Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að tryggja sameign þjóðarinnar á þessum mikilvægu auðlindum, vatninu þar með talið, og inn í það má draga fleiri auðlindir, tryggja sameign þjóðarinnar í stjórnarskrá eða öllu falli tryggilega í löggjöf um eignarhald á auðlindum sem þjóðareign. Ég tel að það sé verðugt verkefni fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því að slík löggjöf líti dagsins ljós. Stóru línurnar í stjórnmálum snúast ekki síst um samfélagsþjónustuna, hvernig hún er veitt, hverjir veita hana, hverjir bera ábyrgð á henni og hvaða aðgang hefur almenningur að henni? Er það á jafnræðisgrundvelli?

Þær geta orðið býsna miklar deilurnar um það hvernig farið er með sameiginlegar auðlindir almennings. Dæmi eru um að hin pólitísku átök um þær spurningar velti jafnvel stjórnarmeirihlutum, eins og nýlegir atburðir sanna. Ég er þess vegna sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að það er ekki eðlilegt að minnihlutasjónarmið á Alþingi hvað þetta snertir ráði ferðinni og að Sjálfstæðisflokkurinn geti, í krafti samstarfs í ríkisstjórn, knúið fram stefnu sína um einkaeignarrétt á auðlindum þegar fyrir liggur, að ég tel, að meiri hluti Alþingis er annarrar skoðunar. Sá meiri hluti á að sjálfsögðu að fá að ráða í þessu efni.

Herra forseti. Við fjöllum hér um pólitísk átakamál. Þetta er pólitískt mál þar sem pólitísk hugmyndafræði ræður þeim áherslum sem uppi eru. Þegar verið var að byggja upp vatnsveiturnar í lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar hélst sú uppbygging í hendur við þróun félagshyggjunnar þar sem sveitarstjórnum var vissulega ætlað stórt hlutverk. Það tengdist hugmyndinni um að almannaþjónustan sé órjúfanlegur hluti opinbera geirans, alveg á sama hátt og einkavæðing síðustu 15–20 ára hefur tengst pólitískri hugmyndafræði, frjálshyggjuhugmyndafræðinni, sem trúir því að einkavæðing sé leiðin fram á við.

Í nokkrum löndum hafa verið sett ákvæði í lög eða jafnvel í stjórnarskrá til að vernda vatnsauðlindina og vatnsveiturnar frá einkageiranum. Þetta er spurning um almannagæði og í mínum huga gilda ekki sömu lögmál um þau almannagæði og um hefðbundna vöru. Nú veit ég og skynja á frammíköllum sem hér hafa verið að þau viðhorf eiga ekki upp á pallborðið í röðum Sjálfstæðisflokksins. En það endurspeglar það sem ég sagði þegar í upphafi máls míns að hinar pólitísku átakalínur snúast einmitt um slík grundvallaratriði.

Jafnvel þótt einkavæðing hafi átt nokkurn meðbyr í þjóðfélaginu og meðal almennings á einhverjum tímapunkti held ég að almenningsálitið sé að breytast hvað þetta snertir og á það vil ég leggja áherslu. Ekki síst þegar við erum komin að þessum mikilvægu auðlindum okkar, vatninu, rafmagninu, heita vatninu og því öllu saman. Ég held að almenningi blöskri hvernig græðgisvæðingin er að halda innreið sína í þennan geira svo að fólk getur ekki lengur verið öruggt um að það fái notið þessara almannagæða af öryggi og á viðráðanlegu og sanngjörnu verði.

Ef menn vilja hlusta á samfélagið, hlusta á þjóðina, þá hljóta þeir að komast að þeirri niðurstöðu að tryggja eigi að þessar eignir verði skilgreindar og skýrt ákveðnar þjóðareign í lögum og helst stjórnarskrá. Um það getur áreiðanlega orðið breið samstaða á Alþingi. Ef einhverjir vilja ekki vera með í þeim leiðangri er þeim það að sjálfsögðu frjálst að standa upp úr stólunum hérna, þar sem enginn að vísu situr núna, og víkja fyrir öðrum sem vilja tryggja framgang þjóðareignar á auðlindum.

Herra forseti. Þetta er að mínu viti mikilvægt baráttumál. Ég vil því að lokum segja að ég tel að ekki sé nægilega langt gengið með frumvarpinu sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram um að fresta gildistöku laganna um eitt ár. Vissulega má segja að frestur sé á illu bestur og það sé það eina sem Samfylkingin hefur náð fram í þessu efni í samtölum sínum og samningum við Sjálfstæðisflokkinn. Vissulega er það áfangi í sjálfu sér. En eftir sem áður þýðir það bara frest á málinu og hin umdeildu vatnalög taka þá gildi ári síðar ef ekki hefur tekist að ná samstöðu um nýja löggjöf á þessu sviði. Ég hygg að það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn sem muni standa í vegi fyrir því og þess vegna óttast ég að við munum standa í sömu sporum að ári og ræða þá aftur tillögu um brottfall eða frestun vatnalaga. Ég tel að það sé ekki góð niðurstaða. Það er mikilvægt að taka þessi lög algerlega til gagngerrar endurskoðunar pólitískt og á meðan á einfaldlega að búa við þá löggjöf sem við höfum búið við um langt árabil og hefur verið farsæl þó flestir viðurkenni að á henni megi gera einhverjar lagfæringar og breytingar. En það er ekki svo aðkallandi að það þoli ekki bið eftir almennilegri endurskoðun á vatnalögunum sem þó verður að hafa það markmið að leiðarljósi að vatnsauðlindin sé almenningseign.