135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[21:01]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Suðurk. fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég sé ekki annað en að við getum átt gott samstarf um að standa að þeim hlutum, þ.e. að marka þann ramma sem nauðsynlegt er að marka varðandi orkulindirnar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að eitt af mestu vandamálunum sem menn stóðu frammi fyrir og hafa staðið frammi fyrir var að lagaramminn sem átti að vera til og hefði átt að vera til fyrir löngu varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og aðrar orkuveitur og almenningsveitur, var ekki fyrir hendi. Það skapar ákveðna réttaróvissu og ákveðinn vanda sem nauðsynlegt er að menn fari í gegnum og höggvi á. Það er nú einu sinni svo að menn hafa horft á það í mörgum löndum að ákveðnir, fáir einstaklingar hafa yfirtekið auðlindir heilla þjóða, jafnvel milljónaþjóða. Við viljum ekki sjá íslenskt þjóðfélag þróast þannig.